RKÍ sendir 10 milljónir króna til Gasa

Rauði kross Íslands sendi í dag 10 milljónir króna til neyðaraðstoðar Alþjóða Rauða krossins á Gasasvæðinu. Rúmar sex milljónir eru framlag frá ríkisstjórn Íslands en tæpar fjórar milljónir úr hjálparsjóði Rauða krossins.

Í tilkynningu frá RKÍ segir, að forgangsverkefni Alþjóða Rauða krossins í Palestínu sé að aðstoða sjúkrahús á Gasasvæðinu og sjá þeim fyrir nauðsynlegum birgðum af lyfjum, blóði og skurðaáhöldum. Pálína Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur,  hefur yfirumsjón með heilbrigðisverkefni Rauða krossins í Gasa og á Vesturbakkanum.

Teymi skurðlækna og sérfræðinga Rauða krossins komst loks til starfa við Shifa sjúkrahúsið í Gasaborg á mánudag, og beðið er eftir leyfi fyrir fleiri skurðlækna á næstu dögum. Í tilkynningunni segir, að ástandið á sjúkrahúsum í Gasa sé skelfilegt, en Rauða krossinum hefur tekist að senda birgðir til sjúkrahúsa á svæðinu til að hlúa að um 3000 særðum.

Alþjóða Rauði krossinn hefur lýst yfir þungum áhyggjum vegna ástandsins í Gaza og krafist þess að ísraelsk yfirvöld fari eftir alþjóðlegum mannúðarlögum og veiti Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum fullan aðgang að særðum borgurum.

Teymi frá Alþjóða Rauða krossinum og palestínska Rauða hálfmánanum fékk í fyrsta sinn í gær  leyfi ísraelska hersins til að senda sjúkrabíla til að vitja fólks í Zaytun hverfi Gasaborgar en beðið var um aðstoð þar 3. janúar vegna sprengjuárásanna.

Starfsmenn Rauða krossins og Rauða hálfmánans fóru um sundurtætt hverfið og fundu fjögur börn sem biðu við lík móður sinnar í einu húsanna. Í næstu húsum fannst einnig fjöldi látinna. Alls voru um 30 særðir fluttir úr hverfinu.

Flytja varð börnin og þá særðu á ösnum hluta leiðarinnar því herinn hafði rutt upp hervirkjum allt í kring og því ekki hægt að koma sjúkrabílunum að. Fjöldi særðra á þessum slóðum bíður enn aðstoðar.

„Þessi atburður er sannarlega áfall fyrir okkur sem vinnum að því að bjarga lífi almennra borgara,” er haft eftir Pierre Wettach, yfirmanni skrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Ísrael og á hernumdu svæðunum. „Ísraelsher hlýtur að hafa vitað hvernig málum var háttað en gerði ekkert til að aðstoða borgara sem særðust í árásunum. Einnig var reynt að koma í veg fyrir að aðstoð bærist frá Rauði krossinum og Rauði hálfmánanum.”

Rauði krossinn telur ljóst að Ísraelsher hafi í þessu tilfelli brotið gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, og krefst þess að sjúkrabílar Rauða hálfmánans fái vernd til að sinna skyldum sínum og leyfi til að aðstoða og leita særðra borgara á átakasvæðunum.

Þrjú læknateymi og fjórir sjúkrabílar Rauða hálfmánans í Palestínu hafa orðið fyrir skotárásum Ísraela meðan þau voru að sinna útköllum síðan átökin brutust út 27. desember. Einn sjálfboðaliði Rauða hálfmánans lét lífið við hjálparstörf sín í byrjun janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert