Sameining stofnana mætir harðri andstöðu

St Jósefsspítali í Hafnarfirði.
St Jósefsspítali í Hafnarfirði. Árni Sæberg

Fljótlega eftir að heilbrigðisráðherra kynnti í gær uppstokkun á stjórnun heilbrigðisstofnana í landinu fór að bera á gagnrýni og mikilli andstöðu við breytingarnar.

St. Jósefsspítali í Hafnarfirði verður lagður niður í núverandi mynd og heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni fækkað úr 22 í 6. Verkefni og yfirstjórn færist því til og búast má við nokkrum uppsögnum stjórnenda. Óljóst er hver áhrifin verða í heild á starfsmannafjölda en með skipulagsbreytingunum hyggst heilbrigðisráðherra spara um 1.300 milljónir króna, þar af um 750 milljónir á suðvesturhorninu.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra segir við Morgunblaðið að hann skilji vel áhyggjur starfsfólks heilbrigðisstofnana. Óvissa sé aldrei af hinu góða en breytingarnar verði kynntar áfram á næstu dögum með hagsmunaaðilum. Hann segir að öllum steinum verði velt við, hvort sem það er í yfirstjórn heilbrigðismála eða eftirlitsstofnunum.

Lítill tími til samráðs

Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga ályktuðu í gær þar sem vinnubrögð við kynningu og innleiðingu breytinga voru átalin harðlega. Lítill tími væri gefinn til samráðs en vinnuhópar eiga að skila tillögum til ráðherra um útfærslu á breytingunum fyrir 19. janúar nk. Sameiningar stofnana eiga að taka gildi 1. mars.

Fjölmörg sveitarfélög hafa óskað eftir viðræðum við heilbrigðisráðuneytið vegna þessa, m.a. Hafnarfjörður og Vestmannaeyjar, en síðarnefnda sveitarfélagið vill taka yfir rekstur Heilbrigðisstofnunarinnar í Eyjum, sem fara á undir Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

BSRB hefur einnig óskað eftir fundi í ráðuneytinu. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, segir það ámælisvert að breytingarnar hafi verið kynntar á fréttamannafundi án þess að rætt hafi verið við samtök starfsfólks á viðkomandi vinnustöðum. Óvissan sé mikil hjá starfsfólki og sjúklingum.

Starfsfólki St. Jósefsspítala, sem beið heilbrigðisráðherra eftir blaðamannafundinn í gær var heitt í hamsi. Sveinn G. Einarsson, yfirlæknir á svæfingadeild, sagði starfsfólkið vera sárt. Unnið hefði verið að breytingunum með mikilli leynd og verið væri að leggja niður öflugar og afkastamiklar skurðdeildir og flytja þær suður til Keflavíkur. „Þetta er ekki hagræði heldur hagsmunapólitík,“ sagði Sveinn. Starfsfólkið á fund með heilbrigðisráðherra í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert