Allir 12 sjúklingarnir af hjúkrunardeildinni Seli við Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA) hafa nú verið fluttir á öldrunardeild stofnunarinnar í Kristnesi, 10 km sunnan Akureyrar. Nokkrir fóru þangað í fyrradag og þeir síðustu í gær, sumir með tárin í augunum, að sögn starfsmanna.
Forráðamenn FSA tilkynntu um fyrirhugaðar breytingar í lok nóvember og var þeim þá mótmælt, bæði af starfsfólki og aðstendendum sjúklinga.
Talið er að 100 milljónir króna sparist með því að færa fólkið á Kristnes en að sögn forstjóra FSA á sínum tíma tengjast breytingarnar ekki þeim niðurskurði í heilbrigðiskerfinu sem rætt er um þessa dagana, heldur benti hann á að í framtíðarsýn spítalans væri gert ráð fyrir því að hjúkrunardeildir yrðu ekki reknar í húsnæði stofnunarinnar á Akureyri.