Skora á ráðherra að endurskoða afstöðu sína

Starfsmenn St. Jósefsspítala biðu heilbrigðisráðherra á meðan hann kynnti breytingar …
Starfsmenn St. Jósefsspítala biðu heilbrigðisráðherra á meðan hann kynnti breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar í gær. mbl.is/Golli

„Við krefjumst þess að heyra rök ráðuneytisins fyrir þeirri ákvörðun sem nú liggur fyrir. St. Jósefsspítali er einn af stærri vinnustöðum í Hafnarfirði og margt af því fólki sem þar starfar nú hlýtur að missa vinnuna ef einhver sparnaður á að verða af þessari aðgerð. Við skorum því á heilbrigðisráðherra að endurskoða afstöðu sína,“ segir í áskorun sem  áhugamenn um framtíð St. Jósefsspítala í Hafnarfirði hafa sent Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra.

Áhugamenn um framtíð St. Jósefspítala í Hafnarfirði lýsa furðu sinni og vanþóknun á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið við undirbúning og ákvörðun um að leggja St. Jósefsspítala niður í núverandi mynd. Hópurinn segir að engin fagleg umræða virðist hafa farið fram og ekki verið leitað upplýsinga um starfsemi spítalans af hálfu ráðuneytisins.

„Við teljum að mikill þekkingarskortur á starfsemi spítalans hafi leitt til rangrar niðurstöðu. Við skiljum að sparnaðar er nú þörf í heilbrigðisgeiranum sem aldrei fyrr en krefjumst þess að ráðuneytið sýni fram á hvaða sparnaði þessi ráðstöfun skilar,“ segir í áskorun hópsins til ráðherra.

Þá segir að spítalinn sé einn af stærri vinnustöðum Hafnarfjarðar og áform um sparnað hljóti að leiða til uppsagna starfsfólks.

„Spítalinn hefur starfað í 82 ár eða síðan 1926. Bæjarlífið verður eðlilega ekki samt eftir að þessi starfsemi er horfin. St. Jósefsspítali hefur haft orð á sér fyrir að veita góða persónulega og faglega þjónustu og metnaður starfsfólks hefur verið mikill. Jafnframt spyrjum við hvað verði um þá sjúklinga sem til spítalans haf leitað. Margir velunnarar og góðgerðarsamtök í Hafnarfirð hafa gegnum tíðin lagt spítalanum lið með fjárstyrkjum til tækjakaupa enda hefur því ekki verið mótmælt að öll aðstaða er þar góð til þeirra verka sem spítalinn hefur sérhæft sig í að sinna. Hugmyndir um að koma upp sérhæfðri öldrunarþjónustu í húsnæði spítalans kall á gífurlega kostnaðarsamar breytingar. Við skorum því á heilbrigðisráðherra að endurskoða afstöðu sína,“ segir í áskorun hóps áhugamanna um framtíð St. Jósefsspítala en undir áskorunina skrifa 22 einstaklingar. Þeirra á meðal eru heilbrigðisstarfsmenn og forsvarsmenn líknarfélaga sem stutt hafa starfsemi St. Jósefsspítala.

Áhugahópurinn hefur boðað til borgarafundar um framtíð spítalans. Yfirskrift fundarins er „Stöndum vörð um starfsemi St.Jósefsspítala og  framtíð Heilbrigðisþjónustu í Hafnarfirði.“

Hópurinn hefur boðið Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra til fundarins.

Ræðumenn verða Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, Ragnhildur Jóhannesdóttir, hjúkrunarfræðingur, Almar Grímsson, bæjarfulltrúi og Kristín Gunnbjörnsdóttir formaður Bandalags kvenna í Hafnarfirði.

Fundurinn veðrur í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði á laugardag og hefst klukkan 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert