Skora á stjórnvöld að ljúka við Dettifossveg

Dettifoss í klakaböndum.
Dettifoss í klakaböndum. mbl.is

Vegna umræðu síðustu daga um niðurskurð í vegaframkvæmdum á landsbyggðinni vill stjórn Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi skora á þingmenn og ráðherra að staðið verði við gefin loforð um áframhaldandi framkvæmdir við Dettifossveg sem hafist var handa við síðastliðið haust.

„Dettifossvegur er gríðarlega mikilvægur hlekkur í  áframhaldandi eflingu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og því afar mikilvægt að framkvæmdum við veginn verði hraðað sem mest en honum ekki slegið á frest. Ferðaþjónustan hefur beðið í áratugi eftir að greiðfær vegur verði lagður að helstu náttúruperlum innan þjóðgarðsins, m.a. að Dettifossi, Hljóðaklettum og Hólmatungum sem gefa náttúruperlum Suðurlands „Gullfoss og Geysi" ekkert eftir þegar horft er til áhuga ferðamanna á að skoða svæðið. (núverandi vegur er illfær slóði sem opnast ekki fyrr en líða fer á sumar og lokast í fyrstu snjóum).
 
Ferðaþjónustan er, og hefur verið helsti vaxtarbroddurinn í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni undanfarin ár og miklar vonir bundnar við áframhaldandi vöxt á komandi árum. Þá sýna „Ferðaþjónustureikningar" Hagstofu Íslands að framlegðin í greininni verulega hærri en áður hefur sést, þá er veltan í greininni mun meiri en áður hefur verið haldið fram. Það yrði í hrópandi ósamræmi við stefnu stjórnvalda um eflingu ferðaþjónustunnar og loforð um langþráðar framkvæmdir við  Dettifossveg ef fæti yrði nú brugðið fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi.
 
Stjórn Markaðsstofu Ferðamála á Norðurlandi skorar á þingmenn kjördæmisins, ráðherra ferða- og byggðamála að tryggja áframhaldandi framkvæmdir við Dettifossveg frá þjóðvegi 1 niður í Ásbyrgi og efla um leið ferðaþjónustuna á þeim svæðum sem mest þurfa á því að halda, þ.e. í Öxarfirði, á Kópaskeri, Raufarhöfn, Melrakkasléttu og í Langanesbyggð," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert