Of mikið var af gerlum í allt að 38% sýna, sem tekin voru úr ís úr vélum á sölustöðum á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Íssala var stöðvuð hjá nokkrum fyrirtækjum en leyfð á ný þegar þau höfðu sýnt fram a viðeigendi úrbætur eða áætlanir um þær.
Könnun á örverufræðilegum gæðum íss úr vél var gerð í sumar á vegum matvælaeftirlits Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar. Alls voru tekin 60 íssýni á 49 sölustöðum í Reykjavík. Kannaður var aðbúnaður á sölustöðum, ýmis atriði varðandi ísvélarnar athuguð, hitastig mælt og sýni tekið til örverurannsóknar. Sýni voru rannsökuð hjá Matís ohf.
Í skýrslu um rannsóknina segir, að víðast hvar hafi aðbúnaður á sölustað góður, ísvélar séu víðast hvar þrifnar einu sinni í viku og hitastig í flestum tilfellum í lagi. Í fyrstu sýnatöku voru 55% sýna fullnægjandi, 17% voru yfir aðfinnslumörkun og 28% sýna voru ófullnægjandi.
Í skýrslunni kemur fram, að helstu ástæður ófullnægjandi niðurstaðna hafi verið of hár heildargerlafjöldi og of hár fjöldi kólígerla. Sýni voru tekin aftur hjá þeim fyrirtækjum þar sem niðurstöður voru ófullnægjandi. Í annarri sýnatöku voru 44% sýna fullnægjandi, 19% fengu athugasemd og 38% voru með ófullnægjandi.
Íssala var stöðvuð hjá þeim fyrirtækjum sem voru með ófullnægjandi niðurstöður í annað sinn. Var íssala leyfð á ný þegar fyrirtækið hafði sýnt fram á viðeigandi úrbætur eða áætlanir um þær. Öll sýni reyndust fullnægjandi í þriðju sýnatöku.
Umhverfis- og samgöngusvið segir, að hlutfall fullnægjandi sýna í fyrstu sýnatöku hafi veirð hærra en á síðustu árum en hlutfall sýna sem ekki stóðust endurtekna sýnatöku sé svipað fyrri árum.