Áformum ráðherra mótmælt á Sauðárkróki

Borgarafundur sem haldinn var á Sauðárkróki í dag mótmælir harðlega áformum heilbrigðisráðherra um að sameina Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki öðrum heilbrigðisstofnunum á Norðurlandi. Fundurinn átelur jafnframt vinnubrögð ráðherra í málinu.

Á fimmta hundrað manns mættu á fundinn og var samstaða bæjarbúa mikil. Hiti var í mannskapnum og ljóst að slá á skjaldborg um stofnunina.

Í ályktuninni er bent á að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki hafi um langt árabil verið vel rekin, bæði faglega og fjárhagslega. Það skýtur því skökku við að hún skuli eiga að sæta afarkostum og niðurskurði, að því er virðist til þess eins að bæta rekstur annarra stofnana.

„Fundurinn hvetur ráðherra til að skoða betur áform sín og virða lagaákvæði sem kveða á um að samráð skuli haft við heimamenn um sameiningar heilbrigðisstofnana. Jafnframt skorar fundurinn á ráðherra að heimsækja Skagafjörð og kynna sér af eigin raun starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki og eiga um leið samtal og samráð við íbúa Skagafjarðar,“ segir í ályktun fundarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert