Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, hefur engin viðbrögð fengið við bréfi, sem hann sendi til sendiherra Írans í Ósló, þar sem hann grennslaðist fyrir um afdrif Shirin Ebadi, heiðursdoktors HA. Hann fékk hins vegar tölvupóst á dögunum frá Ebadi, þar sem fram kom að hún væri heil á húfi.
Shirin Ebadi er handhafi friðarverðlauna Nóbels og mannréttindafrömuður í heimalandi sínu og var gerð að heiðursdoktor við HA árið 2004.
Bréfið sendi Þorsteinn þann 30. desember, í kjölfar frétta af því að íranska lögreglan hefði ráðist inn á skrifstofur mannréttindahóps sem Ebadi leiðir. Í samtali við mbl.is sagði Þorsteinn að hann hefði síðan fengið frá henni tölvupóst þann þriðja janúar síðastliðinn. Í honum þakkar hún, fyrir hönd sjálfrar sín og samtaka sinna, fyrir stuðninginn. „Stuðningur ykkar er mikils virði fyrir mig og alla baráttumenn fyrir mannréttindum í Íran," segir í bréfinu.
Að sögn Þorsteins hefur hann einnig verið í sambandi við aðstoðarmann Ebadi, sem gaf þær upplýsingar að búið væri að loka skrifstofum samtaka hennar. Þá hefðu tölvur hennar og öll skjöl verið gerð upptæk. „Þannig að hún er auðvitað við afar erfiðar aðstæður þarna." Þá segir hann ekki vitað hvar hún haldi sig. „Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af henni og hennar örlögum þarna."
Fái Þorsteinn ekki svör frá sendiráðinu á næstu dögum hyggst hann fara með málið áfram. „Þá myndi ég skoða samtök á borð við Amnesti International og slíka aðila sem hafa reynslu af því að fást við svona mál."