Frysting tekin fyrir hjá Evrópuráðsþinginu

Icesave reikningur Landsbankans
Icesave reikningur Landsbankans Retuers

Framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins samþykkti í dag beiðni Íslands um að sú aðgerð breskra stjórnvalda að beita hryðjuverkalögum til að frysta eigur Landsbankans í Bretlandi 8. október sl. yrði tekin til meðferðar bæði í laga- og mannréttindanefnd og efnahagsnefnd Evrópuráðsþingsins. Steingrímur J. Sigfússon á sæti í framkvæmdastjórninni og sótti fundinn sem fór fram í Barselóna.

Forsaga málsins er að 28. nóvember sl. voru þær aðgerðir breskra stjórnvalda að beita hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum og færa starfsemi dótturfyrirtækja Landsbankans og Kaupþings í Bretlandi undir breska fjármálaeftirlitið auk yfirlýsinga breskra ráðamanna ræddar á stjórnarnefndarfundi Evrópuráðsþingsins í Madríd. Umræðan fór fram að beiðni Íslandsdeildar sem í eiga sæti Guðfinna S. Bjarnadóttir, Ellert B. Schram og Steingrímur J. Sigfússon, sem átti frumkvæði að umræðunni og flutti málið á fundi stjórnarnefndarinnar, að því er segir í tilkynningu.

Beiting hryðjuverkalaganna einsdæmi

„Beiting breskra hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum er einsdæmi. Í fyrsta sinn var slíkum lögum beint gegn fyrirtæki sem tengist ekki með nokkrum hætti hryðjuverkastarfsemi auk þess sem Ísland er frá bandalagsríki Breta í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Beiting laganna hafði í för með sér að Landsbankinn var settur á sama svarta listann og hryðjuverkasamtökin Al-Kaída. Auk þeirra er að finna önnur samtök og ríkisstjórnir á listanum, sem eiga það sameiginlegt að vera beitt viðurlögum vegna brota á alþjóðalögum og samningum, ekki eingöngu af breskum stjórnvöldum heldur einnig Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum.

Bresk stjórnvöld hafa réttlætt aðgerðina fyrir sitt leyti með vísan til þess að sá hluti laganna, sem beitt var til að frysta eigur Landsbankans, nái ekki eingöngu til aðila sem tengist hryðjuverkastarfsemi, heldur sé starfsemi þeirra ógn við efnahagslegan eða fjárhagslegan stöðugleika landsins.

Innistæður á Icesave innan við 0,5% af innistæðum í Bretlandi

Á stjórnarnefndarfundinum í nóvember kom fram stuðningur við gagnrýni Íslandsdeildar á aðgerðir breskra stjórnvalda sem halda má fram með rökum að hafi verið umfram meðalhóf og stórlega aukið efnahagsvanda þjóðarinnar.

Í máli breskra stjórnarandstöðuþingmanna á fundinum var m.a. bent á að þegar hryðjuverkalögin voru sett á sínum tíma þá var sá hluti laganna, sem notaður var til að frysta eignir Landsbankans, samþykktur á þeirri forsendu að honum yrði eingöngu beitt þar sem ættu í hlut óvinveitt ríki eða aðilar þrátt fyrir að lögin segðu það ekki berum orðum. Því væri spurningarmerki sett við hvort beiting laganna í tilviki Landsbankans hafi verið í samræmi við anda laganna annars vegar og tilefnið hins vegar í ljósi þeirra alvarlegu afleiðinga sem aðgerðin hafði fyrir efnahag Íslands. Lögmenn hafa metið það svo að litlar líkur séu á því að íslenska ríkið geti unnið mál gegn breska ríkinu á lagalegum forsendum þar sem laganna bókstafur veiti breskum stjórnvöldum í reynd mjög víðtækar lagaheimildir.

Spurningar vakna um misbeitingu

Fordæmið, sem bresk stjórnvöld hafa hins vegar sett með aðgerðum sínum gagnvart Landsbankanum, sýnir ótvírætt hvernig hægt er að beita lögunum á þann hátt að spurningar vakna um hugsanlega misbeitingu, sem margir hafa varað við, þar með talið Martin Scheinin, sérlegur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna um verndun mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum, að því er segir í tilkynningu.

„Í framhaldi af stjórnarnefndarfundinum í nóvember og þeirri niðurstöðu að litlar líkur væru á því að íslenska ríkið gæti farið dómstólaleiðina ákvað Íslandsdeildin að fara þess á leit við framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins að málinu væri vísað bæði til laga- og mannréttindanefndar og efnahagsnefndar. Þar yrði m.a. skoðað frekar hvort bresk stjórnvöld hafi gengið of langt í aðgerðum sínum gagnvart Íslendingum og hvort bresku lögin byðu upp á misbeitingu á grundvelli þess hversu víðtæk þau eru.

Ef það verður niðurstaðan er það ósk Íslandsdeildar að gefin verði út tilmæli til allra 47 aðildarlanda Evrópuráðsins um að hryðjuverkalög verði endurskoðuð með það að markmiði að  gera skýran greinarmun á lögum sem taka til baráttunnar gegn hryðjuverkum annars vegar og lögum sem ná til viðbragða gegn annars konar vá eins og ógn við efnahagslegan stöðugleika hins vegar. Slík tilmæli eru að mati Íslandsdeildar forsenda þess að beitingu hryðjuverkalaga verði settar meiri skorður og hafi þar með ekki ótilætlaðar afleiðingar eins og á Íslandi þar sem efnahagsvandi þjóðarinnar var aukinn stórlega með aðgerðum breskra stjórnvalda," að því er segir í tilkynningu frá Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert