Hundruð eigna enda á uppboðum

Vanskil á fasteignasköttum eru að margfaldast hjá reykvískum skattgreiðendum, svo mikið að grípa á til aðgerða með lagasetningu. Þetta kemur fram í umsögn Kristbjargar Stephensen borgarlögmanns til borgarráðs, sem lögð var fram á fundi ráðsins í gær.

Nú þegar hefur verið beðið um uppboð á fasteignum 400 greiðenda, af 1.500, sem eru í vanskilum við Reykjavíkurborg með fasteignaskatt ársins 2007. Ekki nóg með það, heldur segir í umsögninni að vanskil um 2.000 skattgreiðenda, vegna fasteignaskatts fyrir 2008, verði send í innheimtu hjá lögfræðingum í þessum mánuði.

Ef svipað hlutfall fasteigna endar á uppboði núna og fyrir 2007 má búast við því að rúmlega 530 fasteignir til viðbótar verði seldar ofan af fólki og fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum út af þessu. Til samanburðar var aðeins óskað eftir uppboði á fasteignum 100 greiðenda vegna ársins 2006.

„Það sem við sjáum hér er vaxandi fjöldi mála sem fer í löginnheimtu og það er mjög líklegt að það verði vaxandi fjöldi mála sem fer í uppboð. Það er ástæðan fyrir því að þessi tillaga er lögð fram,“ segir Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert