Læknar heilsugæslustöðvanna í Hafnarfirði og Garðabæ lýsa þungum áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum á starfsemi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Hvetja þeir heilbrigðisyfirvöld til að endurskoða þau áform og lýsa jafnframt vilja til að koma að viðræðum um framtíðarskipan þessara mála á svæðinu.
Í tilkynningu, sem Emil L. Sigurðsson, yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar Sólvangi, Guðrún Gunnarsdóttir, yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar Fjarðar og Bjarni Jónasson, yfirlæknir Heilsugæslunnar í Garðabæ, segir að St. Jósefsspítali hafi um margra áratugaskeið verið ein af grunnstoðum heilbrigðisþjónustunnar í Hafnarfirði og Garðabæ. Skjólstæðingar heilsugæslustöðvanna hafi fengið úrvalsþjónustu hjá vel þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki sem þar vinnur.
„Það er ljóst ef fyrirhugaðar breytingar sem lúta að því að gera spítalann að öldrunarstofnun, ná fram að ganga, verður um verulega skerta þjónustu við okkar skjólstæðinga að ræða. Jafnframt mun þetta leiða til þess að stór sjúklingahópur mun þurfa að sækja dýrari þjónustu inná yfirfullt hátæknisjúkrahús. Miðað við fram komnar forsendur eru þessar breytingar í besta falli mjög vafasamar bæði fjárhagslega og faglega," segir m.a. í tilkynningunni.