Grasrót, kall þjóðarinnar eftir breytingum, endurnýjun og endurreisn. Þetta eru slagorð framsóknarmanna, sem nú leita að nýjum farvegi fyrir flokk, sem er aðframkominn vegna innanbúðarátaka og fylgistaps. Þótt enn sé kraftur og vilji í flokksmönnum, virðist elsti flokkur landsins hvorki tilbúinn til stjórnarsetu né fullvígur í stjórnarandstöðu fyrr en arfleifð síðustu stjórnarsetu hefur verið gerð upp. „Gömlu gildin upp,“ segja framsóknarmenn.
En hvernig flokk vilja þeir skapa sér á flokksþinginu 16.-18. janúar? Og þar af leiðandi, hvernig formann vilja þeir?
Fyrstu viðbrögð viðmælenda eru yfirleitt: „Sterkan leiðtoga.“ Semsagt einhvern sem getur sett niður deilur innanhúss, sem er mikið aðalatriði, og aflað flokknum fylgis. En „sterkur leiðtogi“ rímar ekki endilega við „nýtt og ferskt“.
Allir vonbiðlar um formennskuna telja sig fulltrúa endurnýjunar og umskipta en jafnframt er sá sem mesta hefur reynsluna, Páll Magnússon bæjarritari, með skýrustu tenginguna við flokksforystu síðustu ára. Guðlaugur Sverrisson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, segir þetta ekki vandamál. „Við skulum vona það,“ segir hann spurður hvort sterkur leiðtogi sé í hópi umsækjenda. „En það skiptir kannski ekki öllu máli að nýr formaður hafi hagað sér eins og mikill foringi hingað til, heldur þarf hann nú að geta tileinkað sér fljótt stöðu hins sterka leiðtoga.“ Að öðru leyti þarf formaður að vera trúr samvinnustefnunni, að mati Guðlaugs, sem segir erfitt að spá fyrir um úrslit.
Ýtarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.