„Fyrstu aðgerðir okkar um leið og við tókum við skipuninni var að fara á alla staði og ganga úr skugga um að öryggi gagna hefði verið eins vel tryggt og mögulegt var,“ segir Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, spurður út í áhyggjur af hugsanlegum tilraunum til að spilla rannsóknargögnum.
„Við óttuðumst þetta og þess vegna urðu þetta fyrstu undirbúningsaðgerðir okkar. Við könnuðum hvaða gögn væru til og gengum úr skugga um að varðveisla þeirra hefði verið tryggð til framtíðar,“ segir Páll ennfremur.
Fræðimenn sýna rannsókninni mikinn áhuga
„Það er hægt að upplýsa um það að það virðist vera mikill áhugi hjá hinu alþjóðlega fræðasamfélagi á þessari rannsókn og þeim atburðum sem hún lýtur að, segir Páll.
Hann segir að þeir innlendu og erlendu sérfræðingar sem nú þegar hafi verið leitað til um ráðgjöf við nefndina hafi allir tekið málaleitan hennar mjög vel. Nefndinni er ætlað að draga upp heildarmynd að aðdraganda að falli bankanna.
Nefndin sjálfstæð og óháð
„Að því er varðar sjálfstæði nefndarinnar þá er lagalega gengið frá því eins og best verður á kosið. Það hefur þá ekki verið gert betur hingað til. Hvort það má gera enn þá betur geta menn auðvitað alltaf rætt. En verðum við ekki að sjá hver reynslan verður. Nefndin mun þá láta í sér heyra ef hún telur að sér vegið,“ segir Páll og bætir við: „Hún er sjálfstæð, óháð og tekur ekki við fyrirskipunum frá neinum.“
Páll bendir á að það sé ekki hlutverk nefndarinnar að annast sakamálarannsókn á þessu sviði. Það falli undir embætti sérstaks saksóknara skv. ný settum lögum Alþingis.
Páll segir að í lögum um nefndina sé ekki tekin afstaða til þess hversu langt aftur rannsóknin eigi að ná heldur sé nefndinni ætlað að meta það, með tilliti til þess hvað hún telur nauðsynlegt. „Hins vegar er á því byggt að meginhluti rannsóknarinnar nái til þess tíma þegar neyðarlögin voru sett. Við erum að rannsaka aðdraganda og orsakirnar, en að meginstefnunni til förum við ekki fram yfir það,“ segir Páll.
Bankaleynd aflétt
Nefndinni er hins vegar heimilt að ganga lengra til að ná heildstæðri mynd af því sem gerðist. Þá getur hún einnig gert tillögu um frekari rannsókn á atburðum sem gerðust eftir þetta tímamark.
Páll bendir á að með lögum nr. 142/2008 sé bankaleynd aflétt af núverandi og fyrrverandi starfsmönnum fjármálafyrirtækja gagnvart rannsóknarnefndinni. Á sama hátt er þagnarskyldu aflétt af opinberum starfsmönnum gagnvart nefndarmönnum. Í lögunum eru nefndinni jafnframt fengnar víðtækar heimildir til að afla upplýsinga, gagna og skýringa auk þess sem hún getur kallað einstaklinga til skýrslutöku.