Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu, mun fara í sex mánaða leyfi frá þeim störfum og taka að sér að samræma starf sem unnið er á vegum stjórnarráðsins vegna bankahrunsins.
Halldór Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, mun taka við verkefnum Guðmundar í menntamálaráðuneytinu á meðan þessu stendur. Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, mun gegna störfum Halldórs og hún verður jafnframt staðgengill ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneyti.
Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, segir verkefni Guðmundar felast í að halda utan um, fylgja eftir og tengja saman allar þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem farið verður í til að ráða niðurlögum efnahagsvandans. „Það þýðir m.a. að hann mun sjá um að samræma störf ráðuneyta og í raun tryggja að allir gangi í takt,“segir Kristján. „Þetta er merki um að ríkisstjórnin ætli að spýta enn frekar í lófana og taka þéttar á þeim vandamálum sem við blasa.“