Fyrsti fundur rannsóknarnefndarinnar

Nefndina skipa þau Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, sem er formaður, …
Nefndina skipa þau Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, sem er formaður, og Sigríður Benediktsdóttir. mbl.is/Ómar

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur nú þegar haldið fundi með skilanefndum bankanna, Fjármálaeftirliti, Seðlabanka Íslands og Nasdaq OMX Kauphöllinni og lagt grunn að gagnaöflun varðandi rannsókn á aðdraganda hruns bankanna. Þetta kom fram á fyrsta blaðamannafundi nefndarinnar, sem fer nú fram.

Rannsóknarnefnd Alþingis var komið á fót með lögum nr. 142/2008 til þess að rannsaka aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Lokið var við að skipa í nefndina 30. desember 2008. Í henni eiga sæti Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis og Sigríður Benediktsdóttir kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum.

Nefndin mun fá til liðs við sig innlenda og erlenda sérfræðinga til að vinna að einstökum þáttum rannsóknarinnar og skipa sérstaka vinnuhópa með innlendum og erlendum sérfræðingum sem munu sinna ákveðnum þáttum rannsóknarinnar, sem er undir stjórn nefndarinnar.

Fram kemur á vef nefndarinnar , sem var jafnframt kynntur með formlegum hætti á fundinum, að með töluverðri einföldun megi segja að „meginhlutverk rannsóknarnefndar Alþingis sé að safna upplýsingum um staðreyndir málsins, draga upp heildarmynd af aðdraganda að falli bankanna og svara þeirri spurningu hverjar hafi verið orsakir þess. Þá skal nefndin leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni og hverjir kunni að bera ábyrgð á því,“ segir á síðunni.

„Heimasíðunni er ætlað að auðvelda fólki að hafa samband við nefndina, koma á framfæri við hana ábendingum og gögnum, og veita upplýsingar um störf hennar. Rannsóknar­nefndin hvetur þá sem telja sig búa yfir upplýsingum sem geti komið að gagni við störf hennar að hafa samband. Vakin er athygli á ákvæðum laga nr. 142/2008 um meðferð nefndarinnar á trúnaðarupplýsingum og stöðu þeirra sem vilja láta henni í té upplýsingar.“

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert