Það er óhætt að segja að pallborðið á borgarafundi í Iðnó í gærkvöldi hafi verið myndrænt og lýsandi fyrir ástandið í þjóðfélaginu og umræðuefnið sem var borgaraleg óhlýðni. Þátttakendur voru meðal annars aðgerðarsinnar, yfirmenn úr lögreglunni og þeir sem hafa farið fyrir hefðbundnari mótmælum.
Fundarmenn bauluðu þegar skýrt var frá því að dómsmálaráðherra hefði afþakkað boð á fundinn en lögreglan benti viðstöddum á að senda ráðherranum tölvupóst og uppskar hlátrasköll.
Eva Hauksdóttir sagði réttlætið lögum æðra og borgaraleg óhlýðni væri ekki það sama og að aka fullur eða ráðast á fólk, heldur væri verið að brjóta lög eða óskráðar reglur á skipulagðan hátt í pólitískum tilgangi. Henni væri oftast beint gegn þeim sem ekki væri hægt að lögsækja eða aðgerðunum í Alþingishúsinu og við ráðherrabústaðinn hafi til dæmis beint gegn lögunum um að það sé ekki hægt að reka ríkisstjórnina, nema hún samþykkti það sjálf. Ef þetta væri að vera glæpamaður, þá væri hún stoltur glæpamaður.
Stefán Eiríksson og Geir Jón Þórisson frá Lögreglunni áttu í vök að verjast. Lögreglan var sökuð um allskyns fantaskap gagnvart mótmælendum, meðal annars um að hlera síma þeirra. Því neituðu lögreglumennirnir en viðurkenndu að taka myndir á mótmælafundum til að styðjast við ef eitthvað refisvert kæmi upp á fundunum. Geir Jón Þórðarson vildi þó ekki gangast við því að þeim væri safnað á skipulegan hátt í sérstök gagnasöfn og sagðist eiga nóg með að safna í fjölskyldualbúmin heima hjá sér.
Aðgerðarsinnar voru aftur á ferðinni í morgun en í þetta sinn voru þeir að afhenda blómvendi, meðal annars Ríkisskattstjóra og bankastjóra Nýja Kaupþings sem fékk rós í hnappagatið fyrir að hafa fyrstur gefið upp launin sín.