Húsfyllir er nú á borgarafundi í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði, sem hófst fyrir stundu, og eru um 2.000 manns mætt til fundarins. Yfirskrift hans er „Stöndum vörð um starfsemi St. Jósefsspítala og framtíð heilbrigðisþjónustu í Hafnarfirði,“ en sú ákvörðun heilbrigðisyfirvalda að hætta starfsemi St. Jósefsspítala í núverandi mynd hefur vakið hörð viðbrögð bæjarbúa.
Gunnhildur Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur setti fundinn sem hófst kl. 14. en meðal framsögumanna eru Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Lúðvík Geirsson bæjarstjóri og Almar Grímsson bæjarfulltrúi. Þá taka einnig til máls Ragnhildur Jóhannsdóttir hjúkrunarfræðingur, Almar Grímsson bæjarfulltrú og Kristín Gunnbjörnsdóttir formaður Bandalags kvenna í Hafnarfirði. Að loknum framsögum verður mælendaskrá opnuð.
Fundurinn er haldinn að frumkvæði áhugamannahóps um framtíð St. Jósefsspítala. Bæjarbúar voru hvattir til að fjölmenna og virðast hafa tekið þeirri bón vel miðað við þéttsetinn bekkinn.