Fyrirtæki hanga í snöru

Ásdís

Snara er um hálsinn á fyrirtækjum í landinu sem blæðir smátt og smátt út, segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Snaran sé hátt vaxtastig.

Enginn leggi í að fjárfesta eða að kaupa fyrirtæki þegar fjármagnið sé svona dýrt. Hátt vaxtastig komi í veg fyrir að hægt sé að ýta einhverju úr vör og nýtt upphaf í landinu. Undir þetta tekur Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Þeir hafa áhyggjur af mati Creditinfo Íslands um að tæplega 3.500 fyrirtæki stefni í þrot innan tólf mánaða. Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir mat þeirra að byggingarfyrirtæki og þau sem eru í verslun og þjónustu séu í mestri hættu.

Andrés segir augljósu afleiðingarnar við gjaldþrotin að fjöldi fólks missi vinnuna. „Ef þetta gengur eftir eru það alvarlegustu afleiðingarnar. Fyrir utan allt tjónið sem verður í bankakerfinu. Tjón sem verður vegna gjaldþrota er ómælanlegt fyrir samfélagið,“ segir hann. „Þegar fyrirtæki verða gjaldþrota fæst sjaldnast upp í almennar kröfur; til dæmis kröfur frá birgjum. Oft fæst upp í forgangskröfur eins og laun, skatta og lífeyrissjóðsgjöld en aðrar ekki. Það hefur dómínóáhrif en fer þó eftir stærð og styrk fyrirtækja hversu vel þau standa slíkt af sér. En þegar einn hlekkur brestur hefur það áhrif út í allt atvinnulífið.“

„Lækka verður vexti,“ segja þeir Andrés og Jón Steindór. Það sé mikilvægt til að koma í veg fyrir gjaldþrotin. „Niður í sjö prósent með þá núna,“ segir Andrés. Það sé markmiðið. „Engar forsendur eru til þess að halda þessu háa vaxtastigi úti.“ Hann bendir á að enn séu stýrivextir átján prósent á meðan seðlabankar nágrannalanda rembist við að ná niður stýrivöxtum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert