Carsten Valgreen, fyrrum hagfræðingur hjá Danske bank, gagnrýnir Seðlabankann og viðbrögð stjórnvalda við bankahruninu harðlega í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Segir hann þar m.a. nauðsynlegt að auka sjálfstæði Seðlabankans og afnema verðtryggingu hér á landi.
Valgreen segir að meginvandamálið á Íslandi hafi verið stærð bankanna. Þeir hafi leyft sér og verið leyft að stækka allt of mikið. Nú hefur kreppan einnig leitt í ljós hve vanvirkt stofnanaumhverfið var. Þá gagnrýnir hann harðlega að fyrrverandi forsætisráðherra skuli sitja í stól seðlabankastjóra og segir það leiða til þess að bankanum sé verr stjórnað en ella og að hann sé ósjálfstæðari en hann ætti að vera.
Sem dæmi nefnir hann fljótfærnislega þjónýtingu Glitnis, ósanna fréttatilkynningu um rússneskt lán, stutta tilraun til að festa gengi krónunnar og miklar æfingar með stýrivexti seðlabankans.
Hann segir öll viðbrögð stjórnvalda við kreppunni hafa verið tilviljanakennd og að engin áætlun hafi verið sýnileg. Þess vegna hafi önnur ríki krafist aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og því hafi Bretar gripið til beitingar hryðjuverkalaga.