„Ég tel að það sé nauðsynlegt að rannsaka þetta, því ef satt reynist er það mjög alvarlegt mál,“ segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, um orð Eiríks Tómassonar, útgerðarmanns í Grindavík, á fundi auðlindahóps Sjálfstæðisflokksins 8. janúar sl.
Á fundinum sagði Eiríkur eigendur gömlu viðskiptabankanna hafa látið starfsfólk sitt einbeita sér að því að selja útflutningsatvinnuvegum og lífeyrissjóðum gjaldmiðlaskiptasamninga sem miðuðu að því að hagnast á styrkingu krónunnar. Eigendur bankanna hefðu hins vegar tekið „risastöður“ gegn henni og skapað gríðarlegan vanda fyrir þjóðina alla.
Eiríkur sagði jafnframt að þeir sem væru á þessari skoðun hefðu fengið rækilega sönnun „þegar þeir lásu frétt um að Kjalar hf. sem sagður er hafa átt 10 prósent í Kaupþingi, gerði kröfu um að fá stöður sínar gegn krónunni greiddar út“.
Hrafn segir að ef satt reynist hafi eigendur bankanna unnið gegn hagsmunum lífeyrissjóðanna og í raun þjóðarinnar allrar. Enn standa yfir viðræður við skilanefndir bankanna um að ganga frá samningunum á genginu 175. „Við teljum að það sé algjör markaðsbrestur í stöðunni en höfum viljað ljúka málinu og það er nauðsynlegt að það gerist sem allra fyrst.“