Peter Örebech, þjóðréttarfræðingur við Háskólann í Tromsö, segir reynsluna ekki sýna að Ísland geti, ef það gengur inn í Evrópusambandið, náð fram breytingum á þegar settum reglum sambandsins um fiskveiðar. Engum hafi tekist það. Örebech hélt ræðu á fundi Heimssýnar um sjávarútvegsmál og ESB, í Þjóðminjasafninu í dag, en þar töluðu auk hans Einar Kr. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ og Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur hjá Samtökum fiskvinnslustöðva.
Enn fremur sagði Örebech að jafnvel þegar einstök ríki telji sig hafa fengið undanþágur frá hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sambandsins, t.d. með útgáfu sérstakrar reglugerðar, sé kálið ekki sopið þótt í ausuna sé komið.
Nefndi hann sem dæmi að Maltverjar hafi á sínum tíma gert kröfu um að sérstök veiðistjórnun gildi fyrir hafsvæðið umhverfis Möltu, út að 25 sjómílum. Sérstök reglugerð hafi verið samin og samþykkt um það efni. Í ljós hafi hins vegar komið á endanum, að ESB setti reglur um það hafsvæði eins og önnur, en ekki Malta. Það skilyrði hafi verið sett að fiskveiðistjórnunin yrði á jafnræðisgrundvelli meðal aðildarríkja (e. non-discriminatory). Auk þess hafi valdið til að setja fleiri reglur um hafsvæðið umhverfis Möltu, til framtíðar, legið hjá Evrópusambandinu, en ekki Möltu.
Einnig ræddi Örebech um kröfur einstakra aðildarríkja til yfirráða yfir hafsvæðum innan 12 mílna landhelgi, sem er eins og lesendur vita annað en efnahagslögsaga. Innan tólf mílna hafa þjóðríki haft meiri völd en utan tólf mílna. Tók hann dæmi af því að Svíar hafi viljað banna þorskveiðar í Eystrasalti alfarið á tíunda áratugnum. Því hafi verið hafnað af stofnunum ESB. Þá hafi Svíar brugðið á það ráð að banna þorskveiðar alfarið innan 12 mílna frá sænsku Eystrasaltsströndinni. Fyrir það hafi einnig verið tekið og Svíar þurft að hætta við þau áform. Niðurstaða hans er sú að öll hafsvæði við og tilheyrandi aðildarríkjum ESB séu ESB-hafsvæði, hvernig sem á það er litið.
Nefndi hann einnig dæmi af kröfum Norðmanna, í aðildarviðræðum á síðasta áratug, um sérstök yfirráð yfir hafsvæðum í norðri, og skilyrði um óskert réttindi til veiða í vissum tegundum utan kvóta, sem hafi verið hafnað.
Þá sagði hann að árið 1994, þegar Norðmenn stóðu í þessum viðræðum, hafi það líka verið sett fram sem ,,gulrót" fyrir þá, eins og Íslendinga núna, að þeir fengju áhrif við inngönguna. Norðmenn gætu t.a.m. skipað áhrifamikla embættismenn hjá framkvæmdastjórninni, í sjávarútvegsmálum. Þessu svaraði Örebech þannig til að hvað sem áhrifum líður séu ákvarðanir um sjávarútvegsmálin tekin með meirihlutaatkvæði. Ísland fengi ekki meira vægi en Lúxemborg, Noregur fengi ekki meira vægi en Danmörk. Samanlögð atkvæðatala Norðurlandanna allra sé svo lítil að þau geti á engan hátt stöðvað reglusetningu sem þeim ekki líkar. Tók hann dæmi af kunningja sínum, danska Evrópuþingmanninum Jens-Peter Bonde, þekktum Evrópusambandsandstæðingi. Sá hafi sagt honum að síðan 1979, þegar hann tók fyrst sæti á þinginu, hafi honum aldrei nokkurn tíma tekist að hafa áhrif á eina einustu löggjöf, sem komið hafi frá framkvæmdastjórn ESB.
Örebech sagði regluna um „hlutfallslegan stöðugleika“ (e. relative stability), sem byggir á því að veiðiheimildir fari til þeirra sem veiðireynsluna hafa, vera fallvalta vörn gegn veiðum erlendra skipa á íslenskum miðum. Reglan sé óvinsæl í mörgum ESB-ríkjum og barist sé kröftuglega gegn henni.