Stjórn Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands telur breytingar á skipulagi og niðurskurður á þjónustu á HSu stefna öryggi fæðandi kvenna og annarra íbúa svæðisins í hættu. Þetta kemur fram í ályktun stjórnarinnar.
„Ráðið harmar þann niðurskurð sem stofnunin stendur frammi fyrir og þá skerðingu á þjónustu Heilbrigðisstofnunarinnar sem íbúar á þjónustusvæði hennar þurfa óhjákvæmilega að horfast í augu við. Telur stjórn Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs HSu að með því að leggja niður vaktþjónustu á skurðdeild HSu sé öryggi fæðandi kvenna og annarra íbúa svæðisins hér stefnt í hættu. Öllum er ljóst sú mikla slysagildra sem Suðurlandsvegar er og tíðari ferðir fólks til að leita sér læknis- og fæðingarþjónustu í Reykjavík felur óneitanlega í sér aukna hættu auk þess sem hluti hans er fjallvegur, þar sem allra veðra er von og færð oft slæm eða með öllu ófært,“ segir í ályktun stjórnar ráðsins.
Stjórn ráðsins segist skilja að spara þurfi í heilbrigðisgeiranum en það sé hins vegar algjörlega óásættanleg ráðstöfun að svipta HSu getu til að halda úti fæðingarþjónustu með vanhugsuðum og skammsýnum sparnaðaráformum. „[U]ndrast ráðið hversu hljóðir þingmenn kjördæmisins hafi verið um þetta mál og lítið beitt sér til að stöðva þessa aðför að heilbrigðisþjónustu svæðisins.“