Samfylkingarfólk í Skagafirði mótmælir

Stjórn Samfylkingarinnar í Skagafirði hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er harðlega mótmælt að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki verði lögð niður í núverandi mynd. Stjórnin tekur undir ályktun borgarafundar á Sauðárkróki 9. janúar s.l. og hvetur þingmenn og ráðherra Samfylkingarinnar til að beita sér fyrir afturköllun ákvörðunar heilbrigðisráðherra.

Fram kemur í yfirlýsingu stjórnarinnar að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki hafi ítrekað hlotið viðurkenningu fyrir árangur í rekstri og því skjóti þessi ákvörðun algerlega skökku við. Það séu öfugmæli að þessar aðgerðir verði til eflingar heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, þvert á móti ógni þær nærþjónustu og vegi þar með að lífsgæðum íbúa.

Þá segir að niðurskurður lykilstofnana geri uppbyggingu atvinnulífs sem sé þjóðinni allri til hagsbóta enn erfiðari. Samfylkingin verði ávalt að setja gildi jafnaðarstefnunnar í öndvegi og ákvarðanir stjórnvalda verði að vera í sátt við notendur þjónustunnar.

 Samfylkingin í Skagafirði mótmæli einnig harðlega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafi verið  við ákvarðanatöku um sameiningu heilbrigðisstofnanna og vari alvarlega við afleiðingum slíkrar árásar á grunnstoðir samfélagsins í Skagafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka