Víða læti í heimahúsum í nótt

Talsverður erill var hjá lögreglunni í Reykjavík í nótt, einkum vegna hávaðaútkalla. Mikið virðist hafa verið um partý í heimahúsum fram eftir nóttu sem gáfu nágrönnum tilefni til að kalla til lögreglu og skakka leikinn. Eins var töluvert um flugeldasprengingar fram eftir nóttu með tilheyrandi truflun fyrir sofandi fólk.

Klukkan 06:19 í morgun kom upp eldur í kyrrstæðum bíl við Rauðhellu í Reykjavík. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en ekki er enn vitað um eldsupptök á svo óvenjulegum tíma, þó hugsast geti að bilun hafi orðið í rafmagni bílsins að sögn lögreglu.

Þá voru tveir menn handteknir snemma í nótt fyrir að brjótast inn í bíla á Barónsstíg og höfðu þeir þegar brotist inn í nokkra þegar lögregla hafði hendur í hári þeirra. Bílainnbortum hefur farið fjölgandi undanfarið og því ástæða til að minna fólk á að geyma ekki verðmæti svo sjáanlegt sé út um bílrúðuna.

Á skemmtistöðum í miðborginni var nóttin tiltölulega róleg að þessu sinni að sögn lögreglu. Talsvert var af fólki og ölvun eftir venju en engin sérstök tilfelli af slagsmálum eða pústrum rötuðu í dagbók lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert