Eiríkur Tómasson, eigandi útgerðarfyrirtækisins Þorbjarnar hf. í Grindavík, sagði á hádegisfundi á vegum Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins að sjávarútvegsfyrirtæki í landinu hefðu verið blekkt til þess að gera samninga sem fólu í sér að veðja á hagnað með styrkingu krónunnar. Reyndin hefði síðan verið sú að krónan hefði veikst mikið og samningar fyrirtækjanna hefðu því verið í uppnámi.
„Það er víðtæk skoðun þeirra sem gerðu þessa samninga við bankana að það sé maðkur í mysunni. Þeir sem halda þessu fram fengu loks í gær [á miðvikudag. innsk. blm.] sönnun fyrir því að þetta á sér stoð í raunveruleikanaum, þegar þeir lásu frétt um að Kjalar hf. sem sagður er hafa átt 10 prósent í Kaupþingi, geri kröfur um að fá stöður sínar gegn krónunni greiddar út hjá bankanum. Í dag kemur svo sambærileg frétt um Exista, annan eiganda í Kaupþingi. Er hægt að kalla þessi vinnubrögð „svikamyllu“? Hvernig er þetta hjá öðrum fyrrverandi eigendum bankanna, eru einu eignir þeirra stöður gegn krónunni? Og eru það stöður gegn þjóðinni?“ sagði Eiríkur á fundinum. Enn er óljóst hvernig samningarnir verða gerðir upp.