Ekkert Fréttablað á sunnudögum

Fréttablaðið
Fréttablaðið mbl.is/Arnaldur

„Endanleg ákvörðun er sú að fella niður sunnudagsútgáfu blaðsins og efla laugardaginn,“ segir Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, en síðdegis var tekin sú ákvörðun að fækka útgáfudögum blaðsins. Engar uppsagnir fylgja breytingunum sem taka gildi þegar í stað.

Sunnudagsútgáfu Fréttablaðsins hafa fylgt fjögur sérblöð og munu þau framvegis koma út á laugardögum. Að öðru leyti verða litlar breytingar á útliti laugardagsútgáfunnar. 

Með breytingunum næst fram töluverð hagræðing, en mikill kostnaður fór í prentun og dreifingu sunnudagsútgáfunnar, samkvæmt heimildum mbl.is.

Aðspurð um hvort um tímabundna ráðstöfun sé að ræða segir Steinunn: „Við höfum alltaf lagt áherslu á mikinn sveigjanleika í útgáfu. Nú aðlögum við útgáfuna að þeim tímum sem eru uppi. Hugsanlega kemur svo til þess á síðari stigum að við þurfum að aðlaga útgáfuna að einhverju öðru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert