Ein af afleiðingum kreppunnar í heiminum er sú að kaupendur sjávarafurða þrýsta nú meira á um verðlækkanir en áður, að sögn Arnars Sigurmundssonar, formanns Samtaka fiskvinnslustöðva. Hann segir að kaupendur þrýsti einnig á um lengri greiðslufresti og kaupi auk þess almennt minna magn í einu en þeir hafi gert.
„Þetta hefur haft í för með sér meiri birgðasöfnun hjá framleiðendum en var, sérstaklega á síðustu vikum,“ segir Arnar. „Það gerir þörfina fyrir afurðalán fyrirtækjanna meiri en áður.“
Arnar segir að fiskvinnslufyrirtækin hafi til þessa ekki kvartað yfir því að bankarnir hafi ekki staðið sig í tengslum við afurðalán til þeirra. Afurðalán hafi á undanförnum árum hins vegar ekki verið mjög stór þáttur í rekstri fyrirtækjanna, þegar veltuhraðinn hafi verið mikill. Þau gætu hins vegar vegið þyngra ef mál héldu áfram að þróast með þeim þætti sem verið hefur að undanförnu.