Fjármálaráðuneytið svari erindum sem því berast

mbl.is/Þorkell

Umboðsmaður Alþingis beinir þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að það hugi framvegis að því að erindum sem því berast sé svarað. Ráðuneytið tók ákvörðun um að svara ekki erindi félags þar sem skorað var á stjórnvöld að lækka álagningu eldsneytis á hópbifreiðar. Umboðsmaður segir það óskráða meginreglu í íslenskum stjórnsýslurétti að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi rétt á að fá skriflegt svar.

Framkvæmdastjóri félags sendi umboðsmanni Alþingis kvörtun sl. sumar þar sem fjármálaráðuneytið hafði ekki svarað erindi þess frá í maí 2008. Í því var rakið að félagið hefði hinn 25. apríl 2008 sent út áskorun til ríkisstjórnar Íslands um lækkun á álagningu eldsneytis á hópbifreiðar hér á landi og því hefðu ekki enn borist svör við því hvort stjórnvöld ætluðu á einhvern hátt að bregðast við þessari áskorun. Vegna þessa fór félagið fram á við fjármálaráðuneytið að þessi mál yrðu skoðuð með hraði og viðeigandi breytingar gerðar. Var þess jafnframt óskað að málið nyti forgangs þar sem það væri brýnt og sérstaklega óskað eftir svari eins fljótt og verða mætti.

Í framhaldinu leitaði umboðsmaður skýringa hjá ráðuneytinu. Í svari fjármálaráðuneytisins segir að ráðuneytinu berist iðulega áskoranir, samþykktir eða kröfur hagsmunasamtaka, fyrirtækja eða einstaklinga um lagabreytingar, þ.m.t. varðandi skatta- og gjaldalækkanir. Fram til þessa hafi slík mál ekki verið talin falla undir stjórnsýslu ríkisins í skilningi laga, heldur hafi fremur verið litið svo á að þar birtust sjónarmið, og í sumum tilvikum ábendingar, sem hafa megi til hliðsjónar við almenna stefnumörkun á viðkomandi sviðum. Því hafi ekki verið talið að ráðuneytinu bæri að taka hvert og eitt slíkra erinda til sérstakrar meðferðar og afgreiðslu á grundvelli stjórnsýslulaga eða annarra óskráðra reglna stjórnsýslunnar.

Umboðsmaður bendir á í áliti sínu að þegar borgararnir eða samtök þeirra beini skriflegum erindum til stjórnvalda, og það verði ekki beint ráðið af erindinu að svars sé ekki vænst, verði að horfa til þess að í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti sé byggt á því að stjórnvöld þurfi að leggja meðferð og afgreiðslu þeirra erinda sem þeim berast í skipulegan farveg er miði að því að erindið fái afgreiðslu lögum samkvæmt.

Þá minnir umboðsmaður á leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, þau þurfi, auk þess að staðfesta að erindi hafi borist, að gera grein fyrir því í hvaða farveg það hafi verið lagt og þar með hvort þess sé að vænta að stjórnvöld bregðist eitthvað frekar við erindinu.

Í þessu sambandi sé horft til stöðu borgarans þannig að hann geti af svarinu ráðið hvort það sé tilefni til þess fyrir hann að hafast frekar að eða bregðast við t.d. gagnvart stjórnvöldum eða öðrum aðilum vegna þess máls sem hið upphaflega erindi hans til stjórnvalda fjallaði um. Hér verði líka að hafa í huga að almennt eigi það ekki að krefjast umfangsmikillar athugunar eða vinnu við að útbúa svar af hálfu stjórnvalda í þessum tilvikum. Það að borgarinn fái umbeðnar upplýsingar í formi skriflegs svars um viðbrögð stjórnvaldsins við erindi hans sé hluti af þeim starfsskyldum sem hvíla á stjórnvöldum.

Samkvæmt erindi félagsins til fjármálaráðuneytisins, var þar skorað sérstaklega á fjármálaráðherra að bregðast við áskorun félagsins til ríkisstjórnarinnar um að lækka álagningu eldsneytis á hópbifreiðar. Var jafnframt óskað eftir því að þessar breytingar yrðu gerðar með hraði og óskað eftir að erindinu yrði svarað eins fljótt og verða mætti.

Umboðsmaður segir að sérstaða þessa erindis felist í því að þar sé beinlínis óskað eftir svari.

„Þessi ósk félagsins leiddi til þess að ráðuneytið þurfti í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að framan að bregðast við henni. Ég fæ ekki annað séð en að ráðuneytið hefði þegar í kjölfar móttöku erindisins getað svarað því með fyrirhafnarlitlum hætti, og þá eftir atvikum með áþekkum hætti og það gerði í bréfi sínu 19. september 2008, þannig að félaginu væru ljós afdrif erindisins. Að minnsta kosti verður ekki ráðið að það hafi kostað ráðuneytið sérstaka fyrirhöfn eða álag á starfsemina að svara erindi félagsins á þennan hátt. Ég tel jafnframt ljóst að fjármálaráðuneytið getur ekki að lögum markað sér þá almennu stefnu fyrirfram eða fylgt þeirri framkvæmd í reynd að svara alls ekki erindum af tiltekinni gerð eða tiltekins eðlis heldur verði ákvarðanir stjórnvalda um svör sín eða önnur viðbrögð við erindum borgaranna að byggjast á mati á viðkomandi erindi og öðrum atvikum hverju sinni,“ segir í áliti umboðsmanns Alþingis.

Þá segir umboðsmaður að upphafleg afstaða fjármálaráðuneytisins um að svara ekki erindinu hafi ekki verið í samræmi við þær almennu skyldur sem hvíla á stjórnvöldum um svör við skriflegum erindum.

„Þá geri ég athugasemdir við þau almennu sjónarmið sem ráðuneytið hefur fært fram um að slík erindi falli ekki undir stjórnsýslu ríkisins í skilningi laga. Ég tel því rétt að beina þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að það hugi framvegis að því að erindum sem því berast sé svarað í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í áliti þessu.“

Álit umboðsmanns Alþingis

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert