Könnun ASÍ: Laun lækkuð hjá 14% aðspurðra

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir ASÍ kemur fram að 14% þeirra sem eru í launaðri vinnu hafa lent í beinni launalækkun frá bankahruninu í byrjun október og starfshlutfall hefur verið lækkað hjá 7% aðspurðra. 

Það eru mun fleiri karlar en konur sem hafa þurft að taka þessar skerðingar á sig. Laun hafa verið lækkuð hjá 18% karla en 8% kvenna, að því er segir á vef ASÍ.

Yfir 80% telja ólíklegt að lækka í launum

Starfshlutfallið hefur verið minnkað hjá 9% karla en 5% kvenna.  Þá virðist skerðing launa og starfshlutfalls vera mun tíðari hjá launamönnum á höfuðborgarsvæðinu en úti á landi. Þegar spurt var út í horfur framundan þá sögðust 16% telja líklegt að laun sín verði lækkuð á næstunni en 73% telja það ólíklegt. Varðandi lækkun starfshlutfalls búast 10% við að það verði lækkað á næstunni en 82% telja það ólíklegt.

Í könnuninni kemur fram að 85% þeirra sem nú eru atvinnulausir hafa misst vinnuna eftir bankahrunið í byrjun október. Þá óttast 24,2% þeirra sem eru í launaðri vinnu um starf sitt og eru karlmenn á höfuðborgarsvæðinu þar fjölmennastir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert