Össur: Eftirtektarverð hjarðhegðun fjölmiðla

Össur Skarphéðinsson ræðir við fréttamenn
Össur Skarphéðinsson ræðir við fréttamenn mbl.is/Golli

Fjölmiðlarnir á tímum bankakólerunnar sýna eftirtektar- og aðdáunarverða hjarðhegðun að því leytinu að það virðist sameiginlegt mat langflestra starfsmanna þeirra að jákvæð tíðindi séu ekki þess virði að eyða á þau plássi. Þetta ritar Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra á bloggvef sínum.

„Hugsanlega endurspeglar þetta sálarástand sem er birtingarmynd af óvissunni sem því miður umlykur framtíð alltof margra í stétt fjölmiðlunga.

Í grundvallaratriðum er það hlutverk fjölmiðla að segja fréttir, leita sannleikans, veita gagnrýnið aðhald og umfram allt að draga upp raunsanna mynd af veruleikanum í kringum okkur. Þeir eiga að sýna allar hliðar hans - og sleppa engri. Það er líka hlutverk þeirra að greina frá því sem jákvætt er, þó allir séu á bömmer. Það hafa þeir ekki gert í bankahruninu.

Við í iðnaðarráðuneytinu kynntum fyrir helgina tíðindi, sem eru ákaflega jákvæð og merk fyrir sprotaheiminn. Við höfum unnið lengi að þeim, og gætt þess vel að vera í nánu samráði við þá sem njóta eiga - sprotana sjálfa. Þrír nýir styrkjaflokkar voru lagðir fram, þar á meðal stórir frumherjastyrkir til að aðstoða unga frumkvöðla með brilljant hugmyndir, bjartsýni - en enga peninga. Sömuleiðis brúarstyrkir, sem eiga að hjálpa lengra komnum yfir „nýsköpunargjána" og loks öndvegisstyrkir til þriggja nýrra fagsviða, þar á meðal framleiðslu á innlendu eldsneyti með hjálp orkulíftækni, sjálfbærrar ferðaþjónustu og vistvæns arkitektúrs.

Ofan í þetta var sáldrað kryddi sem innihélt meðal annars þau tíðindi að sóknarsjóðurinn Frumtak, með hátt í sex milljarða væri að taka til starfa í næstu viku. Sá mun fjárfesta milljarð á ári í 8-10 sprotum og nýsköpunarfyrirtækjum.

Frumtak verður algjör bylting fyrir möguleika nýsköpunar- og hátæknigeirans til að koma sér á alþjóðlegt framfæri. Um leið voru kynnt 12 sprotafyrirtæki, sem hvert um sig hefði á þeim tímum sem fjölmiðlar sáu til sólar verið efni í forsíðu- og baksíðufréttir. Sum voru tær snilld, og önnur svo óvænt - einsog gæsla ófæddra kálfa - að manni sló fyrir brjóst af jákvæðri undrun yfir framsækni íslenskra landbúnaðarvísinda," að því er fram kemur á bloggvef Össurar.

„Fjölmiðlarnir, sem einu sinni höfðu það markmið að sýna allar hliðar veruleikans, voru náttúrlega uppteknir við eitthvað miklu þarfara en það sem jákvætt er í heldur dökkri veröld þessara daga. Mogginn hringdi að vísu um kvöldið og á það íhaldsblað heiður skilinn - en að öðru leyti mætti ekki kjaftur af fjölmiðlunum. Þeir fluttu að minnsta kosti ekki fréttir, enda komu þessi tíðindi ekki við sukki, spillingu, útrásarvíkingum, gjaldþrotum og annarri meintri vonsku heimsins.

Hvað ætli þeir hafi flutt margar fréttir af vöruskorti, sem aldrei varð? Af olíuskorti, sem aldrei varð? Af seðlaþurrð, sem aldrei varð? Af lyfjaskorti, sem aldrei varð?

Á vorum tímum er sannarlega tilefni til að lúberja lóminn - en er það orðið að glæp að flytja jákvæðar fréttir?," segir Össur ennfremur.

Nánar á vef Össurar Skarphéðinssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert