Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi ungan karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni, líkamsárásir og ólögmæta nauðung. Maðurinn braut ítrekað gegn ungum pilti og veittist að lögreglumönnum sem höfðu afskipti af honum í kjölfar árásanna. Lögregla þurfti að beita varnarúða til að yfirbuga manninn.
Árásarmaðurinn, sem var 18 ára þegar hann framdi brot sín, sagðist hafa séð fórnarlamb sitt og stúlku sem hann hafði átt í sambandi við ganga burt frá tónlistarhátíðinni „Aldrei fór ég suður“ á Ísafirði í fyrra. Maðurinn sagðist vita að hinn drengurinn væri farinn að reyna við stúlkuna, hann hefði orðið illur og elt þau í fiskvinnslu skammt frá, þar sem hann ruddist inn á snyrtingu þar sem fórnarlambið var. Maðurinn læsti að sér og felldi fórnarlambið í gólfið. Hann settist klofvega ofan á það, hélt piltinum niðri og neyddi hann til að hlusta á viðvaranir sínar. Fórnarlambið sagði manninn hafa hert að hálsi sínum og hann átt því erfitt með andardrátt.
Lögregla kom að skömmu síðar og rifust árásarmaðurinn og fórnarlambið þá fyrir utan húsið sem lauk með því að maðurinn sló piltinn í götuna. Lögregla hafði afskipti af manninum og bað hann að róa sig. Maðurinn gegndi ekki þeim fyrirmælum og í framhaldinu felldi hann báða lögreglumennina í jörðina, annan þeirra í tvígang. Greip lögregla þá til mace-úða gegn manninum og var hann í kjölfarið handtekinn.
Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi og virti dómurinn honum það til málsbóta, sem og að hann hafði beðið fórnarlamb sitt afsökunar. Hins vegar verði við ákvörðun refsingar ekki með nokkru móti litið framhjá fjölda og alvarleika brota mannsins.
Hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára.