Umboðsmaður Alþingis hefur sent borgarstjórn Reykjavíkur fyrirspurn í sjö liðum vegna starfsemi Fálagsbústaða hf. Umboðsmaður segir að nokkur erindi og kvartanir hafi á síðustu árum borist vegna uppsagna á leiguhúsnæði og framkomu starfsmanna Félagsbústaða hf. Eftir athugun á þeim málum sem borist hefðu taldi umboðsmaður heppilegra að hefja almenna athugun að eigin frumkvæði. Umboðsmaður telur að álitaefni sem upp hafa komið vegna reksturs Félagsbústaða hf, gætu átt við í tilvikum fleiri sveitarfélaga sem stofnað hafa hlutafélag um rekstur félagslegs leiguhúsnæðis.
Umboðsmaður Alþingis ritaði borgarstjórn bréf á gamlársdag þar sem hann lagði spurningar í sjö töluliðum fyrir borgarstjórn Reykjavíkur. Í bréfinu kemur fram að tilefnið sé nokkur erindi og kvartanir þar sem gerðar hafa verið athugasemdir við það hvernig staðið var að ákvörðunum og framkvæmd mála er lutu að félagslegu leiguhúsnæði sem Félagsbústaðir hf. fara með fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Einkum hafi þessar athugasemdir beinst að því hvernig staðið var að uppsögn á slíku leiguhúsnæði og framkomu starfsmanna Félagsbústaða hf. gagnvart leigutökum.
Athugasemdirnar hafi m.a. beinst að því að gripið hefði verið til uppsagnar eða riftunar á afnotum viðkomandi af því húsnæði sem hann hefði fengið á félagslegum grundvelli án þess að nokkur breyting hefði orðið á þeim félagslegu aðstæðum sem voru tilefni úthlutunar húsnæðisins. Uppsögnin og útburðarkrafa fyrir dómi í kjölfar hennar hefði verið sett fram og framkvæmd af hálfu Félagsbústaða hf. án þess að úrlausn hefði áður fengist hjá félagsmálayfirvöldum Reykjavíkurborgar um nýtt húsnæði fyrir viðkomandi eða um fjárhagslegan stuðning til að mæta vanskilum á leigugreiðslum.
Þá hafi athugasemdir einnig beinst að framkomu starfsmanna Félagsbústaða hf. í garð leigutaka. Gripið hafi verið til aðgerða eins og tilkynninga um meint brot á húsreglum eða umgengni án þess að rætt hafi verið við leigutaka eða skýringa leitað hjá þeim og húsmunir leigutaka verið fjarlægðir af starfsmönnum Félagsbústaða hf. úr leiguíbúð án þess að haft hefði verið samband við leigutaka.
Í bréfi umboðsmanns kemur fram að mál af þessum toga hafi áður orðið honum tilefni til bréfaskipta og funda með fulltrúum Reykjavíkurborgar en eftir athugun á þeim málum sem honum hefðu borist að undanförnu væri það niðurstaða hans að heppilegra væri að hann tæki ofangreind álitaefni til almennrar athugunar að eigin frumkvæði. Í því skyni hefði hann ákveðið að rita borgarstjórn Reykjavíkur bréf þar sem hann færi fram á svör við ákveðnum spurningum og óskaði eftir skýringum sem kynnu að varpa betra ljósi á málið. Bréfið var sent borgarstjórn þar sem umboðsmaður telur að hér sé um að ræða málefni sem lúta að fyrri ákvörðunum borgarstjórnar um fyrirkomulag á úthlutunum, meðferð og lok afnota af félagslegu leiguhúsnæði sem sveitarfélagið hefur yfir að ráða til að mæta þeim skyldum sem á því hvíla lögum samkvæmt gagnvart íbúum sveitarfélagsins um úrlausn í húsnæðisvanda þeirra. Umboðsmaður segir í bréfinu að þau álitaefni sem hér kunni að reyna á gætu einnig átt við í tilvikum fleiri sveitarfélaga sem farið hafa þá leið að stofna hlutafélag um rekstur félagslegs leiguhúsnæðis sveitarfélagsins.
Umboðsmaður spyr m.a. um lagagrundvöll fyrir framsali á ákvarðanatöku um uppsögn leigusamninga til einkaréttarlegs aðila en Reykjavíkurborg hefur talið að Félagsbústaðir teljist einkaréttarlegur aðili og sé ekki hluti af stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þá spyr umboðsmaður hvernig hagað sé framkvæmd á aðkomu og ákvörðunum velferðarsviðs borgarinnar að málum einstakra leigutaka áður en til þess kemur að Félagsbústaðir hf. beiti uppsögn eða riftun leigusamnings, hvort heldur um er að ræða vegna vanskila eða meintra brota á húsreglum.
„Ég óska eftir að fá send afrit að tilkynningum og vinnugögnum bæði frá Félagsbústöðum hf. og velferðarsviði vegna þeirra mála sem velferðarsvið fjallaði um af þessu tilefni á tímabilinu 1. september til 31. desember 2008,“ segir í fyrirspurn umboðsmanns til borgarinnar.
Þá er einnig spurt um hvernig Reykjavíkurborg hafi, í tengslum við eftirlitsskyldu sína, skilgreint með hvaða hætti Félagsbústaðir hf. þurfa að starfa til þess að starfsemin sé í samræmi við lög og ef svo er hvort þau skilyrði hafi verið skráð. Hafi það ekki verið skilgreint vil umboðsmaður fá upplýsingar um með hvaða hætti Reykjavíkurborg tryggir að Félagsbústaðir hf. starfi í samræmi við lög í samskiptum sínum við leigjendur félagslegs leiguhúsnæðis á vegum borgarinnar.
Umboðsmaður spyr líka um hvernig eftirliti borgarinnar með starfsemi Félagsbústaða hf. er háttað, sérstaklega hvort borgin hafi að eigin frumkvæði eftirlit með því hvort starfshættir Félagsbústaða hf. séu í samræmi við þær reglur sem gilda um félagslegt leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga. Þá er spurt um hvert þeir einstaklingar sem Reykjavíkurborg hefur úthlutað félagslegu leiguhúsnæði og hafa athugasemdir við starfshætti Félagsbústaða hf., þ.m.t. framkomu eða athafnir starfsmanna, geti leitað innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar.
Loks spyr umboðsmaður hvort borgin hafi, í tengslum við eftirlit með Félagsbústöðum hf., tekið afstöðu til þess með hvaða hætti brugðist yrði við ef rannsókn máls leiddi í ljós að Félagsbústaðir hf. hefðu ekki starfað samkvæmt lögum eða framkoma starfsmanna gagnvart leigjendum félagslegs leiguhúsnæði teldist ekki ásættanleg og hvaða afleiðingar slík niðurstaða gæti haft um endurskoðun á ákvörðunum starfsmanna og stjórnar Félagsbústaða hf.
Farið er fram á að svar Reykjavíkurborgar ásamt nauðsynlegum gögnum verði sent umboðsmanni Alþingis eigi síðar en 9. febrúar nk.