Loftslagsbreytingarnar hafa haft í för með sér aukna skipaumferð á Norður-Atlantshafi með aukinni hættu á umhverfisslysum. Þrátt fyrir það er svæðið ekki nægilega vel kortlagt m.t.t. umhverfisvár. Íslendingar vilja nú samstarf um gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norðurlandaráði.
Áhættukortið á að vera grundvöllur fyrir viðbragðsáætlanir verði umhverfisslys á höfunum. Á undanförnum árum hafa farþega- og fragtflutningar aukist til muna á Norður-Atlantshafi svo mikil þörf er á slíkri kortlagningu. Safna á saman upplýsingum um náttúrufar og viðkvæm vistkerfi í hafinu sem gætu verið í hættu.
„Það verður útbúinn gagnagrunnur með sjókortum og ekki síst áhættumati á siglingaleiðum á Norður-Atlantshafi. Safna á saman upplýsingum um náttúrufar og viðkvæm svæði sem gætu verið í hættu.
Niðurstöðurnar munu mynda grunn fyrir samhæfða umhverfisviðbragðsáætlun fyrir hafsvæðin milli Noregs, Færeyja, Íslands og Grænlands.
Norðurlöndin eru öll áhugasöm um samhæfða gagnasöfnun til verndar sjávarumhverfinu. Á Norður-Atlantshafi er ört vaxandi skipaumferð með olíu og hættuleg efni, bæði meðfram strönd Noregs og á siglingaleiðunum milli Íslands og Færeyja. Með því að vinna gagnabanka og vákort eignumst við norrænt verkfæri til að meta raunverulegar umhverfisógnir á svæðinu og samhæfa viðbrögð, segir Björgvin Sigurðsson samstarfsráðherra.
Þessi þekkingaröflun frá Grænlandi, Íslandi, Færeyjum og Noregi getur einnig myndað grunn að stefnu um verndun Norður-Atlantshafsins og hinna verðmætu auðlinda sem þar er að finna bætir Björgvin við
Vákortið er gert vegna þeirra miklu aukningar á siglingum á norðlægum hafsvæðum sem meðal annars eru til komnar vegna aukinnar eftirspurnar eftir þeim náttúruauðlindum sem finnast á Norðurskautssvæðinu," að því er segir í tilkynningu.
Gert er ráð fyrir að vákortið verði tilbúið fyrir lok ársins 2010.
Verkefnið er liður í formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni árið 2009. Eitt af forgangsverkefnum Íslendinga á formennskutímanum er að styrkja norrænt samstarf um verndun Norður-Atlantshafsins og um Norðurskautssvæðið.