Ástþór Magnússon hefur fyrir hönd Lýðræðishreyfingarinnar sent Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, bréf þar sem hann óskar eftir því að samtökin fái aðgang að útsendingartíma í sjónvarpinu til jafns við þau samtök, sem staðið hafa að opnum borgarafundum að undanförnu.
Ástþór segir í bréfinu, að honum og fleirum hafi verið meinaður aðgangur að mótmælum sem RÚV hafi útvarpað eða sjónvarpað frá á Austurvelli. Þá hafi hann verið borinn út af fundi samtakanna „Opinn borgarafundur“ sem RÚV ráðgeri að sjónvarpa frá á morgun. Vísar hann til laga um Ríkisútvarpið ohf. um að stofnunni beri að halda í heiðri lýðræðislegar
grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.
Segir Ástþór, að Lýðræðishreyfingin vilji aðstoða Ríkisútvarpið með því að standa fyrir þverpólitískum fréttaskýringaþætti, sem verði opinn öllum sjónarmiðum og þeim sem óska að koma þar á framfæri athugasemdum við fréttir. Lýðræðishreyfingin sé tilbúin að leggja til þáttagerðina Ríkisútvarpinu að kostnaðarlausu, annaðhvort með því að leggja til þáttagerðar og tæknifólk til að sjá um útsendinguna frá útvarpshúsinu, eða leggja til straum um dagskrárgerðarlínu frá tæknisetri Lýðræðishreyfingarinnar.
Óskar Ástþór eftir því, að Ríkisútvarpið víki seinni útsendingu á þættinum Poppland til hliðar á Rás2 kl. 12:45 – 14:00 og sendi fréttaskýringaþáttinn út í staðinn.