Neytendasamtökin hafa fengið og fá daglega fjölda fyrirspurna vegna ábyrgðar á tækjum sem keypt hafa verið fyrir gjaldþrot og eigendaskipti hjá verslunum, eins og til dæmis Apple og BT. „Fólk er í vondum málum,“ segir Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum. Nýr eigandi Apple-búðanna hefur óskað eftir því að Apple komi að því að fullnægja ábyrgð fyrri eigenda.
Hagar keyptu verslanir BT af þrotabúinu og Skakkiturninn keypti verslanir Apple þegar Humac fór í þrot. Ingibjörg Magnúsdóttir, fulltrúi hjá Neytendasamtökunum, segir að nýir rekstraraðilar beri strangt til tekið ekki ábyrgð á göllum á vöru sem keypt var hjá fyrri eigendum. Hún segir að verulegir hagsmunir geti verið í húfi þegar fólk sé með tæki upp á tugi eða hundruð þúsunda í ólagi. Neytendasamtökin ráðleggja fólki að gera kröfu í þrotabúin. Eins geti þeir sem greitt hafi með raðgreiðslum athugað með að fá kortafyrirtækin til að stöðva greiðslur. Fólk geti hins vegar ekki sjálft hætt að borga.
Tækin eru yfirleitt seld með eins árs ábyrgð framleiðanda en reglur hér á landi gera ráð fyrir tveggja ára ábyrgð. Erfitt getur líka verið að sækja ábyrgðina til erlends framleiðanda.
BT vísar fólki á Digital tækni sem þjóna mun eigendum Toshiba-tölva með tiltekin framleiðslunúmer. Skakkiturninn, sem nú rekur Apple-búðirnar, hefur óskað eftir því að Apple komi að því að fullnægja ábyrgðarskyldu fyrri rekstraraðila, að sögn Kjartans Haraldssonar þjónustustjóra. Þangað til niðurstaða kemur um það mun nýja fyrirtækið koma til móts við neytendur með því að innheimta ekki kostnað vegna vinnu og sleppa álagningu á varahluti sem þarf vegna viðgerða á tækjum sem voru í ábyrgð hjá fyrri eiganda. helgi@mbl.is