Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðhera heimsótti nú síðdegis, ásamt föruneyti, Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og ræddi þar við stjórnendur og starfsfólk, um leið og hann kynnti sér starfsemi stofnunarinnar. Var hann hvattur til þess á fjölmennum borgarafundi á Sauðárkróki sl. föstudag, þar sem fyrirhugaðri sameiningu stofnunarinnar við nýja Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Akureyri var mótmælt.
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur óskað eftir viðræðum við heilbrigðisráðherra um að taka yfir rekstur heilbrigðisstofnunarinnar og átti ráðherra einnig fund með forsvarsmönnum sveitarfélagsins. Samskonar heimsóknir og fundir eru fyrirhugaðir á morgun á heilbrigðisstofnanir á Akureyri og Húsavík og á fimmtudag á Patreksfirði.
Fleiri sveitafélög hafa óskað eftir viðræðum og átti Guðlaugur Þór einnig fund í morgun með Lúðvík Geirssyni, bæjarstjóra í Hafnarfirði, vegna málefna St. Jósefsspítala. Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti í síðustu viku að leita eftir viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um að taka yfir tiltekna þætti starfseminnar á St. Jósefs, eins og heilsugæslu og heimahjúkrun.