Í fullri vinnu en sótt um bætur

Fólk skráir sig á atvinnuleysisskrá í Bandaríkjunum
Fólk skráir sig á atvinnuleysisskrá í Bandaríkjunum

Tilraun fyrirtækis til þess að greiða starfsmanni aðeins 60% af heildarlaunum, þrátt fyrir að hlutabætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði eigi einungis að greiða vegna skertrar dagvinnu, hefur komið inn á borð Eflingar, að því er Harpa Ólafsdóttir, forstöðumaður kjaramálasviðs stéttarfélagsins, greinir frá.

„Viðkomandi hafði fengið uppsögn á 40% prósenta starfshlutfalli en var samt í fullri dagvinnu auk yfirvinnu. Atvinnurekandinn hafði í raun aðstoðað hann við að sækja um atvinnuleysisbætur fyrir starfshlutfallinu sem á vantaði til þess að þurfa ekki að greiða sjálfur nema fyrir 60% vinnuframlag,“ segir Harpa sem er þeirrar skoðunar að starfsmaðurinn hafi í raun ekki gert sér grein fyrir því hvað um var að vera. „Hann kom hingað og spurði hvernig gæti staðið á þessu.“ Það er hins vegar mat Hörpu að þessi tilraun atvinnurekandans hafi ekki verið komin til framkvæmda.

Hún segir Eflingu hafa haft samband við fyrirtækið og þá hafi hið sanna komið í ljós. „Við höfðum líka samband við ASÍ sem er í góðu samstarfi við Vinnumálastofnun. Það er okkar hlutverk að standa vörð um að svona kerfi virki til þess að það komi ekki niður á félagsmönnum.“

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir þetta fyrsta dæmið sem hann hafi heyrt um af slíkri svindltilraun. „Það er hins vegar alltaf hætta á misnotkun. Við höfum látið Vinnumálastofnun vita af þessu tiltekna máli og óskað eftir því að hún kanni það.“

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, kveðst hafa heyrt sögusagnir um að minnsta kosti tvö tilvik um svindl auk dæmisins sem ASÍ veitti upplýsingar um. „Verkalýðsfélögin hafa fengið fyrirspurnir um þetta frá fyrirtækjum. Að hluta til eru þær byggðar á þeim misskilningi að þetta sé í lagi.“

Í lok desember voru 600 til 700 skráðir atvinnulausir að hluta á móti minnkuðu starfshlutfalli í samræmi við lög um hlutabætur frá því í haust. ingibjorg@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert