Tveir íslenskir sendifulltrúar Rauða krossins halda til Simbabve í dag og á morgun. Þeir munu taka þátt í neyðaraðgerðum Rauða krossins vegna kólerufaraldurs í landinu. Í Simbabve er fyrir annar íslenskur sendifulltrúi sem stjórnað hefur matvæladreifingu frá því í október.
Hjúkrunarfræðingarnir Hildur Magnúsdóttir og Maríanna Csillaq verða í Simbabve í 4-5 vikur. Þær munu starfa með norskum og finnskum neyðarteymum, en hlutverk þeirra er að ferðast um þéttbýli og sveitir í mið- og austurhluta landsins, greina kólerutilfelli og vinna að forvörnum. Um 600 hafa látist úr sjúkdómnum að undanförnu og óttast er að um 13 þúsund séu smitaðir.
Huld Ingimarsdóttir hefur stjórnað matvæladreifingu í landinu frá því í október, en talið er að um helmingur landsmanna standi frammi fyrir hungursneyð á þessu ári.