Breytingar á starfsemi geðdeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eru í hróplegu ósamræmi við þá tíma sem framundan eru og sýna fádæma lítilsvirðingu og skilningsleysi, segir í ályktun frá foreldrafélagi Verkmenntaskólans á Akureyri. Félagið mótmælir harðlega breytingunum.
„Á tímum óvissu og upplausnar í íslensku þjóðfélagi eru breytingar á heilbrigðiskerfi afar viðkvæmar. Það hlýtur að segja sig sjálft að þegar reynir á samstöðu þjóðar að leysa úr stórum vanda sé sérstaklega gætt að hópum eins og ungmennum og öldruðum. Það má vera ljóst að framundan er aukið atvinnuleysi og öryggi margra ógnað vegna þess. Ungmenni fara ekki varhluta af því, ýmist missa vinnu sjálf eða upplifa atvinnumissi foreldra, nema að hvorutveggja verði,“ segir í ályktuninni.