Umboðsmaður Alþingis fær ekki annað séð en að enn kunni að vera uppi sama staða, af hálfu Reykjavíkurborgar og annarra eigenda Orkuveitu Reykjavíkur, og sú sem fram kom við vinnu stýrihóps borgarráðs um málefni REI og Orkuveitunnar snemma árs 2008. Þ.e. að Orkuveitan sé ýmist talin starfa á sviði einkaréttar eða á sviði opinberrar stjórnsýslu.
Þetta ræður umboðsmaður af þeim upplýsingum sem hann hefur aflað um framgang REI-málsins í kjölfar skýrslu og tillagna stýrihópsins, afstöðu Reykjavíkurborgar og hvernig málið var afgreitt á fundi eigenda OR í febrúar 2008.
REI-málið svonefnda, sem hlaust af fyrirhugaðri sameiningu dótturfélags Orkuveitunnar við Geysi Green Energy, þótti áfellisdómur yfir stjórnsýslu í borginni á sínum tíma og snerist m.a. um reglur um stjórnendavald yfir OR. Því þykir ástæða til að þetta sé skýrt.
Í gær var á heimasíðu umboðsmanns sagt frá fyrirspurn hans til borgarstjórnar á gamlársdag, um framgang málsins. Þar kemur fram að honum hafi ekki verið kynntar frekari ákvarðanir eða ráðagerðir um breytingar á reglum um meðferð eigendavalds sveitarfélaganna innan OR eða um stöðu fyrirtækisins almennt frá því í svari við bréfi sem hann ritaði í febrúar 2008.