eftir Önund Pál Ragnarsson
onundur@mbl.is
HÓPUR fólks, um 20-30 manns, mótmælti fyrir utan Alþingishúsið í gærmorgun þegar ráðherrar í ríkisstjórninni komu þangað til þess að halda ríkisstjórnarfund. Áttu ráðherrar og þingmenn erfitt með að komast inn í húsið þar sem mótmælendur lokuðu innganginum og hreyfðu sig hvergi. Að sögn Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, voru allir tiltækir lögreglumenn á vakt kallaðir til. Nokkrar stimpingar urðu milli þeirra og mótmælenda og hiti færðist í fólk. Tveir menn voru handteknir í mótmælunum fyrir eignaspjöll. Að sögn yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar verða þeir sektaðir.
Meðal annars gekk einn mótmælandinn að Geir Haarde forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra eftir að hafa hrint lögreglumanni úr veginum. Fas hans var heldur ógnandi fyrst um sinn en í ljós kom að hann vildi einungis koma skoðunum sínum á framfæri við þau með orðum. Atvikið vekur engu að síður spurningar um öryggi ráðamanna við aðstæður sem þessar. Ekki fengust viðbrögð frá ríkislögreglustjóra eða dómsmálaráðherra um það efni í gær.