Eiga að fá tækifæri til að tjá sig

Börn eiga almennt rétt á því að taka þátt í pólitískum umræðum og mótmælum, og meginreglan er sú að börn eiga að fá tækifæri til að tjá sig um öll málefni sem þau varða. Hins vegar má aldrei nota börn til að koma skoðunum annarra á framfæri. Þetta segir í tilkynningu frá umboðsmanni barna.

„Foreldrar bera meginábyrgð á velferð barna sinna og hafa ákveðið svigrúm til þess að ráða högum þeirra. Foreldrum ber þó ávallt að tryggja að hagsmunum barna sé ekki stefnt í voða og vernda þau fyrir hættulegum aðstæðum, svo sem óeirðum. Þörf barna fyrir vernd eykst eftir því sem aðstæður eru hættulegri. Eftir því sem börnin verða eldri og þroskaðri ber þó að veita þeim aukinn sjálfsákvörðunarrétt, m.a. varðandi þátttöku í pólitísku starfi,“ segir í tilkynningunni.

Ástþór Magnússon, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, sendi umboðsmanni barna erindi þann 5. janúar sl. Ástþór bað um leiðbeinandi álit vegna þátttöku barna í pólitísku starfi og mótmælum á Íslandi. Erindi Ástþórs var tilkomið vegna ræðu 8 ára stúlku á mótmælafundi á Austurvelli þann 3. janúar sl.

„Ekkert óharðnað barn á erindi á ræðupall harðra mótmælenda. Það er skylda bæði foreldra og yfirvalda að vernda börn frá að vera misnotuð á pólitískum vettvangi,“ segir í erindi Ástþórs. Einnig telur Ástþór hættu á að stúlkan verði fyrir einelti í skóla.

Í tilkynningu umboðsmanns barna segir að mikilvægt sé að virða skoðana- og sannfæringafrelsi barna og beri því að leggja áherslu á rétt barna til að tjá sínar eigin skoðanir. „Aldrei ber að nota börn til þess að koma skoðunum annarra á framfæri,“ segir í tilkynningunni.

„Umboðsmaður barna hefur lagt mikla áherslu á rétt barna til þess að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur barnsins og þroska sbr. 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Auk þess njóta börn sama táningafrelsis og fullorðnir sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 13. gr. barnasáttmálans. Meginreglan er því sú að börn eiga að fá tækifæri til þess að tjá sig um öll málefni sem þau varða og eiga rétt á því að hafa áhrif á ákvarðanir í samfélaginu.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert