Engin áhrif haft á ráðuneytið

„Ég hef ekki tekið eftir neinu,“ sagði Margrét Sigurðardóttir, ritari ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins, þegar hún var spurð að því hvort pósthólf starfsmanna væru að fyllast af ruslpósti. Hópur sem kallar sig Andspyrnuhreyfingu alþýðunnar hefur undanfarna daga hvatt til þess að fólk sendi tölvupóst á alla starfsmenn ráðuneytisins klukkan 14 í dag.

„Ef nokkur hundruð eða þúsund manns fást til að taka þátt í svona mótmælum þá þarf ekki að spyrja um áhrif þess við vitum að póstþjónar og skiptiborð munu ekki anna þessari umferð og því mun starfsemi viðkomandi stofnunar lamast tímabundið en ekki skaðast hvorki starfsfólk né tækjabúnaður og það besta er að lögreglan getur bara sinnt sýnu starfi við að halda uppi lögum og reglu úti í borginni og jafnvel einhverjir lögreglumenn tekið þátt í þessum mótmælum,“ segir í hvatningarbréfi hreyfingarinnar.

Þegar blaðamaður hafði samband við ráðuneytið var fljótlega svarað á skiptiborðinu og kannaðist starfsmaður ekki við aukið álag. Ritari ráðuneytisstjóra sagðist hafa fengið einhvern tölvupóst frá klukkan 14 en ekki væri um að ræða fjöldapóst.

Ekki náðist í vefstjóra heilbrigðisráðuneytisins.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert