Um 20 prósent íslenskra kvenna á aldrinum 18 til 25 ára hafa greinst með kynfæravörtur sem er langhæsta hlutfallið á Norðurlöndum. Þetta er niðurstaða könnunar meðal 15 þúsund íslenskra kvenna sem gerð var á árunum 2004 til 2005.
Íslenskar konur á þessum aldri höfðu einnig sofið hjá mun fleiri körlum en jafnaldrar þeirra annars staðar á Norðurlöndum, að sögn Laufeyjar Tryggvadóttur, faraldsfræðings hjá Krabbameinsfélagi Íslands.
„Fjöldi rekkjunauta er sá þáttur sem hefur langmest áhrif á hvort kona smitast. Íslenskar stúlkur voru með hæst algengi kynfæravörtusmits og hér var hröðust aukning á smiti og fjölda rekkjunauta. Hjá yngsta hópi kvennanna voru þeir yfir 12 hér á landi að meðaltali miðað við sjö annars staðar á Norðurlöndum. Þeir eru miklu fleiri nú en fyrir um 20 árum. Þetta ástand endurspeglar eitthvert hömluleysi eða misskilning á því hvernig á að hegða sér og það þarf að taka á þessu,“ segir Laufey.