Fjármögnunarfyrirtækið SP-Fjármögnun ætlar ekki að frysta samningana áfram þegar þessu tímabili lýkur, heldur leita leiða til að leysa varanlega vanda þeirra, sem fryst hafa bifreiðasamninga.
Haraldur Ólafsson, markaðsstjóri SP-Fjármögnunar, segir það hvorki koma sér vel fyrir viðskiptavinina né fyrirtækið að framlengja frystinguna. „Það er allra hagur að fólk haldi bílum og húsnæði og geti greitt af því,“ segir Haraldur. „Við höfum nú þegar hafið vinnu við varanlega lausn verði krónan enn svona veik í febrúar.“
Endanleg útfærsla liggi ekki fyrir og ekki tímabært að segja neitt um hana. Viðmiðið sé að fólk ætti almennt að geta staðið við að greiða þá upphæð sem samningurinn kvað upphaflega á um, en bifreiðasamningar í erlendri mynt hafa snarhækkað, jafnvel tvöfaldast við veikingu krónunnar.
Allt að sjö þúsund samningar hjá SP-Fjármögnun hafa verið frystir eftir bankahrunið en fyrirtækið hóf að frysta þá áður en tilmæli um það komu frá ríkisstjórninni, segir Haraldur.