Fréttaskýring: Háar skuldir ríkissjóðs eiga enn eftir að hækka mikið

Ríkissjóður Íslands skuldar 653.278 milljónir króna samkvæmt Lánamálum ríkisins sem Seðlabankinn gaf út í gær. Stærsti hluti skuldanna, um 335 milljarðar króna, er innlendar skuldir og þar af eru ríkisbréf 209 milljarðar króna, eða 32 prósent allra skulda ríkisins.

Erlendu skuldirnar eru samtals um 318 milljarðar króna eða 49 prósent allra skulda ríkissjóðs. Þar af eru langtímalán í evrum upp á 271 milljarð króna. Þetta eru lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ýmsum löndum sem íslenska ríkið fékk eftir bankahrunið. Um þriðjungur lána ríkissjóðs er til endurgreiðslu árið 2011.

Vantar skuldir vegna hruns

Ofangreindar skuldir taka þó ekki tillit til þeirra skuldbindinga sem munu falla á ríkissjóð vegna falls Landsbankans, Glitnis og Kaupþings. Kostnaður ríkisins vegna þeirra skuldbindinga hleypur á hundruðum milljarða króna.

Þar ber fyrst að nefna kostnað íslenska ríkisins vegna erlendra innlánsreikninga bankanna, Icesave- og Edge-netreikningana. Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans, sagði fyrir nokkru að líklegast myndu um 150 milljarðar króna falla á íslenska ríkið, og þar með skattgreiðendur, vegna Icesave eftir að búið væri að selja eignir Landsbankans til að mæta þeim skuldbindingum. Ekki liggur enn fyrir hversu mikill kostnaður fellur á ríkið vegna Edge-reikninga í Þýskalandi.

Veðlán allt að 270 milljarðar

Þá herma heimildir Morgunblaðsins að kostnaður ríkissjóðs vegna tapaðra veðlána verði allt að 270 milljörðum króna. Sú tala gæti lækkað ef tekst að innheimta eitthvað af þeim veðum sem sett voru fyrir lánunum. Meginhluti þeirra veða var þó bréf sem gömlu bankarnir gáfu út og eru í dag verðlaus.

Auk þess er áætlað að endurfjármögnun ríkisbankanna þriggja kosti um 385 milljarða króna. Sú tala gæti þó hækkað ef bönkunum gengur illa að innheimta viðskiptakröfur sínar. Síðar í janúar er áætlað að kynna ársáætlun í lánamálum ríkissjóðs sem byggist á samningi milli fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um lánaumsýslu ríkissjóðs.

98 milljarðar á gjalddaga

Í Lánamálum ríkisins kemur einnig fram að heildarfjárhæð útgefinna jöklabréfa er 238,1 milljarður króna. Þar af eru 98 milljarðar króna á gjalddaga í janúar og febrúar á þessu ári, eða rúmlega 40 prósent allra útgefinna bréfa. Jöklabréf eru skuldabréf sem erlendir aðilar gáfu út í krónum. Því er um fjármagn að ræða sem mun vilja leita út úr landi á gjalddaga. Hins vegar getur upphafleg fjárhæð bréfanna ekki farið úr landi vegna gjaldeyrishafta sem hér eru við lýði. Þó er heimilt að greiða út vexti af þeim.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert