Íslendingar eru svartsýnir um horfurnar í eigin fjármálum að því er kemur fram í alþjóðlegri könnun, sem gerð var nýlega og sagt er frá í breska blaðinu Guardian í dag. Þá bera 46% Íslendinga traust til bankakerfisins og 44% segjast treysta stjórnvöldum til að stýra efnahagsmálum.
Að meðaltali sögðust 52% svarenda í könnunni treysta eigin stjórnvöldum fyrir stjórn efnahagsmála. 63% Bandaríkjamanna sögðust bera traust til stjórnvalda og er það talið endurspegla væntanleg forsetaskipti þar í landi.
Könnunin var gerð á vegum WIN, alþjóðlegra samtaka könnunarfyrirtækja, í 17 löndum, þar á meðal Íslandi, Bretlandi, Kína og Indlandi. Guardian segir það vekja athygli að Bretar hafa litla trú á þarlendu bankakerfi en aðeins 46% aðspurðra þar sögðust treysta bönkunum.
Um þriðjungur svarenda í Indlandi og Kína töldu að staða efnahagsmála í löndum þeirra muni batna á næstu mánuðum en í þróuðum ríkjum telur mikill meirihluti að staðan muni versna. Íslendingar eru svartsýnastir þeirra þjóða, sem könnunin náði til.