Fundi fulltrúa stjórnvalda og Robert Wade, stjórnmálahagfræðings og prófessors við London School of Economics, er lokið en Wade var meðal frummælenda á opnum borgarafundi í Háskólabíói fyrr í vikunni. Að sögn Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarmanns viðskiptaráðherra, var fundurinn mjög áhugaverður og athyglisverður og fróðlegt að heyra sýn Wade á stöðunni á Íslandi.
Að sögn Jón Þórs fór hluti fundarins í að upplýsa Wade um hvað stjórnvöld eru að gera en Wade hefur mikinn áhuga á að kynna sér betur hvernig unnið er að endurreisn hér á landi. Hann segir að það hafi komið fram að hálfu stjórnvalda á fundinum að það séu nokkur atriði í málflutningi Wade sem þau eru ekki sammála og viljað koma á framfæri leiðréttingu á.
Aftur á móti hafi verið mjög athyglisvert að heyra hans sýn á stöðunni hér og hvernig stjórnmálahagfræði og umræðan hér blandast saman, segir Jón Þór. Hann segir að hægt að draga lærdóm af því sem þar kom fram en mikið sé talað um hve erfitt sé fyrir almenning að fá upplýsingar um stöðu mála þrátt fyrir að stjórnvöld hafi reynt að bæta þar úr. „Eflaust má gera betur í þeim málum," segir Jón Þór.
Wade þekkir vel til mála Íslands og hefur skrifað greinar í erlend blöð um ástand efnahagsmála hér. Hann hélt meðal annars erindi á fundi á vegum viðskiptaráðuneytisins á haustdögum árið 2007 hér á landi.Aðspurður um hvort stjórnvöld muni leita eftir aðstoð Wade segir Jón Þór það alls ekki útilokað. Á döfinni sé ráðstefna sem Háskóli Íslands stendur meðal annars að en hún er skipulögð af Gylfa Zoëga, prófessor í hagfræði við HÍ. Meðal þeirra sem flytja erindi eru Wade auk annarra erlendra og innlendra aðila.
Jón Þór segir að skilanefndir bankanna hafi ráðið til sín erlenda fjármálasérfræðinga til að vinna í málum kröfuhafa. Eins sé hafin vinna við yfirferð á regluverki á fjármálamörkuðum sem finnskur sérfræðingur veitir forstöðu.
Auk Jón Þórs sátu þeir Björn Rúnar Guðmundsson, fyrir hönd forsætisráðuneytisins, og Sigmundur Sigurgeirsson, fyrir hönd fjármálaráðuneytisins, fundinn með Wade.