Kveikti í húsi eiginkonunnar

Fjöldi fólks sem er af erlendu bergi brotið býr í leiguherbergjum á efri hæð hússins  við Tryggvagötu 10 sem kveikt var í laust eftir klukkan eitt í dag. Þá er rekinn markaður í bílskúr á fyrstu hæð.  Stúlka sem opnaði fyrir brennuvargnum slapp ómeidd út en að öðru leyti var húsið mannlaust.

Jökull Gíslason varðstjóri hjá lögreglunni segir manninn hafa hringt dyrabjöllu og þegar táningsstúlka í húsinu opnaði ruddi hann henni til hliðar og kastaði frá sér logandi sígarettu.  Sjónarvottar sem voru að störfum í bílskúr á neðri hæðinni  heyrðu sprengingu og óp skömmu áður en eldurinn blossaði upp.

Maðurinn var handtekinn fjörutíu mínútum eftir að eldurinn kom upp en eiginkona hans  kvartaði við lögreglu oftsinnis í gær vegna hótana hans um íkveikju. Lögreglan hafði tvívegis afskipti af honum í gær en handtók hann ekki. Jökull Gíslason segir að málið hafi verið í vinnslu en lögreglan geti ekki vaktað alla menn og öll hús á öllum tímum.

Húsið er mikið skemmt. Jökull segir ljóst að maðurinn eigi alvarlega ákæru yfir höfði sér ef það sannist að hann hafi  reynt að kveikja í gömlu húsi þar sem fullt sé af fólki. Maðurinn hljóti að vera brjálaður. Enginn venjulegur maður kveiki í húsi þar sem búi fullt af fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert