Margir Norðmenn hafa kynnt sér vefsíðuna Indefence.is eftir að fréttir birtust í vikunni á norska fréttavefnum ABC Nyheter um hryðjuverkalögin, sem Bretar beittu til að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi.
„Miðvikudaginn 8. október gerðist hið ótrúlega: Breska ríkisstjórnin beitti hryðjuverkalögum til að leggja hald á allar eignir íslenska bankans Landsbanka í Bretlandi. Þremur mánuðum síðar eru Íslendingar enn afar illa staddir fjárhagslega og enn er hryðjuverkalöggjöfin í gildi," segir í frétt ABC.
Á vefnum er síðan fjallað um þau viðbrögð Íslendinga, að láta taka af sér myndir þar sem því er komið á framfæri við Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, að Íslendingar séu ekki hryðjuverkamenn.
Ólafur Elíasson, talsmaður Indefece.is, segir að fjöldi Norðmanna hafi í kjölfar þessara greina ABC skráð sig á vef samtakanna og sent Íslendingum kveðjur.
Í annarri frétt ABC Nyheter er haft eftir Ásmundi Stefánssyni, formanni bankaráðs nýja Landsbankans, að Norðmenn og Evrópusambandsríki hafi þrýst á Íslendinga að krefjast þess ekki að deilu um ábyrgð Íslendinga vegna Icesave-reikninga Landsbankans yrði vísað til alþjóðlegs gerðardóms.
Fréttavefurinn segir, að Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, hafi ekki viljað tjá sig um þessi ummæli Ásmundar. Hins vegar er haft eftir Per Olaf Lundteigen, talsmanni Miðflokksins í fjármálum, að norska Stórþingið hafi ekki haft upplýsingar um þetta.